Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 17. mars 2020 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kiddi Jak um vítið örlagaríka: Aldrei nein spurning um brot
Kristinn í leiknum eftirminnilega.
Kristinn í leiknum eftirminnilega.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Jakobsson, besti dómari sem við Íslendingar höfum átt, segist hafa farið ánægður frá ferlinum þrátt fyrir mjög erfiðan síðasta leik á Íslandi.

Síðasti leikur Kristins á dómaraferlinum var eftirminnilegur leikur FH og Stjörnunnar í Kaplakrika árið 2014. Þetta var leikur sem réði úrslitum í Íslandsmótinu það árið, en Stjarnan vann 2-1 og þar með vann liðið Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn.

Í leiknum var nokkuð mikið af vafaatriðum. Fyrra mark Stjörnunnar var ólöglegt vegna rangstöðu, en var dæmt gott og gilt.

„Mér fannst ég enda hann (ferilinn) vel. Ég er sáttur með mína frammistöðu," sagði Kristinn en tók það fram að hann sæi eftir því að ekki hefði verið tekið eftir rangstöðunni í fyrra marki Stjörnunnar.

Svo fékk Veigar Páll Gunnarsson, þá leikmaður Stjörnunnar, rautt spjald fyrir að slá til Hólmars Arnars Rúnarssonar, þá miðjumanns FH. Undir lok leiksins fékk Stjarnan svo vítaspyrnu sem Ólafur Karl Finsen skoraði sigurmarkið úr.

„Ég sá atvikið með þeim hætti að mér fannst aldrei nein spurning um brot. Ég stend enn við það í dag. VAR hefði ekki hjálpað mér því ég hefði alltaf fylgt minni sannfæringu," sagði Kristinn í viðtali við Ríkharð Óskar Guðnason á Stöð 2 Sport í uppgjörsþætti sem var sýndur í kvöld.

„Ég hef aldrei verið hræddur við að taka ákvarðanir. Ég var aldrei í neinum vafa."

Eftir leikinn var Kassim Doumbia, þá varnarmaður FH, alveg brjálaður. Kassim virtist ætla að ráðast að dómurunum, en Steven Lennon og Davíð Þór Viðarsson liðsfélagar náðu að stöðva hann með hjálp frá Steinari Stephensen.

„Ég var aldrei hræddur," sagði Kristinn. „Gæslan í kringum dómarana var mjög góð á þessum leik. Við áttum einn hauk í horni í Steinari Stephensen og eftir þetta atvik höfum við kallað hann bjargvættinn."

„Kassim Doumbia missti höfuðið og var mjög ósáttur. Ég vil ekki segja til hvað hefði getað gerst."

Sjá einnig:
Myndir: Kassim Doumbia ætlaði að vaða í dómaratríóið


Athugasemdir
banner
banner
banner