Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 17. mars 2020 15:03
Magnús Már Einarsson
Krefjandi verkefni fyrir Kidda vallarstjóra - Gæti fengið dauða í grasið
Icelandair
Kristinn að störfum.
Kristinn að störfum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hitapulsan verður tekin niður eftir nokkra daga.
Hitapulsan verður tekin niður eftir nokkra daga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kiddi og Siggi Dúlla í góðum gír.
Kiddi og Siggi Dúlla í góðum gír.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Við erum búnir að vera ansi margar stundir hérna í vetur en það þýðir ekkert að svekkja sig á þessu," sagði Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli, við Fótbolta.net í dag eftir að UEFA staðfesti að umspilsleikur Íslands og Rúmeníu fari ekki fram í næstu viku vegna kórónuveirunnar.

Kristinn og starfsfólk Laugardalsvallar hefur unnið hörðum höndum að því síðan í nóvember að hafa völlinn kláran fyrir leikinn gegn Rúmeníu.

„Maður kannski bjóst við þessum fréttum miðað við ástandið í heiminum og samfélaginu undanfarnar vikur. Þetta kom ekkert á óvart. Þetta er auðvitað svekkjandi miðað við alla þá vinnu sem ég og starfsfólk KSÍ hefur lagt í þetta í vetur."

„Þetta er búið að vera hrikalega lærdómsríkt ferli í vetur. Við höfum lært mikið af þessu og sýnt að við erum með frábært starfsfólk hérna. Þetta var að gera sig. Það eru aðrir hlutir mikilvægari í lífinu en í fótbolti. Mér finnst þetta fyrst og fremst vera skynsamleg ákvörðun hjá UEFA og núna hlökkum við til júní."


Sáttur við stöðuna ef leikurinn væri í næstu viku
Kristinn segir að hann hafi verið bjartsýnn á ástand vallarins fyrir leikinn ef hann hefði verið í næstu viku.

„Við höfum verið nokkuð brattir. Þetta stefndi allt í góðan fótboltaleik og aðgerðir okkar hafa heppnast mjög vel. Þetta hefur tekist vel að mestu leyti og við erum mjög sáttir við stöðuna í dag, ef að leikurinn væri eftir viku."

Gætu fengið dauða í völlinn
UEFA hefur tilkynnt að leikurinn fari fram í byrjun júní og Kristinn segir að það verði krefjandi verkefni að hafa völlinn í góðu ásigkomulagi þá. Staðan sé öðruvísi núna en eftir venjulegan vetur á vellinum.

„Þetta gerir okkur ansi erfitt fyrir núna. Með því að hafa leik í mars og byrja að starta vellinum á undan áætlun þá vorum við undirbúnir undir að geta misst völlinn niður í apríl og fengið dauða í hann. Við vorum tilbúnir að fórna því fyrir leik í mars. Apríl og maí verða ansi mikilvægir núna. Núna klárast eitt plan og þá hefst eitthvað annað plan."

Hitapulsan fer ekki alveg strax
Í byrjun mánaðarins kom sérstök hitapulsa frá Englandi en hún hefur haldið hita á grasinu undanfarið. Pulsan verður tekin niður á næstu dögum en þó ekki alveg strax.

„Lykillinn okkar núna er að trappa niður áður en pulsan fer. Við getum ekki tekið hana af í -10. Við þurfum að lækka hitann undir pulsunni til að sjokkið fyrir plöntuna verði ekki svakalegt þegar pulsan fer. Það skýrist á næstu dögum hvenær pulsan fer en við munum ekki hafa hana alveg út næstu viku. Það er kuldakafli næstu tvo daga og hún verður áfram uppi þá. Við erum með okkar eigin dúka og það er bara tímaspursmál hvenær við setjum þá út og skiptum heita dúknum út," sagði Kristinn en hann er nú að fara að teikna upp áætlun fyrir framhaldið.

„Við setjumst núna niður með Bjarna Hannessyni, grasvallasnilling og mínum aðalráðgjafa. Við skoðum þetta núna. Við erum bjartsýnir eins og við vorum bjartsýnir í nóvember fyrir þennan leik. Það þarf mikið að ganga með okkur. Eins og öll þjóðin veit þá hefur veðrið mikilvæg áhrif á vöxtinn og ástand vallarins," sagði Kristinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner