fös 17. maí 2019 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Stefán skrifar pistil til KA-fólks og þakkar stuðninginn
Óli Stefán á hliðarlínunni í gær.
Óli Stefán á hliðarlínunni í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik KA og Breiðabliks.
Úr leik KA og Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
KA tapaði 1-0 í gær gegn Breiðabliki í Pepsi Max-deildinni á miðvikudag. Uppskeran hefur kannski ekki verið eins og búist var við og er liðið aðeins með þrjú stig að fjórum leikjum loknum.

Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, ákvað að rita pistil til KA-fólks eftir þessa fyrstu fjóra leiki.

Pistillinn var birtur á heimasíðu KA, en hann má í heild sinni lesa hér að neðan.

Pistill Óla Stefáns
Ágætu félagar, við höfum þegar þetta er skrifað spilað fjóra leiki í deild og einn í bikar á 18 dögum. Niðurstaða leikjanna eru þrjú töp og tveir sigrar í þremur útileikjum og tveimur heimaleikjum. Við töpum á móti ÍA úti þar sem við gerum okkur seka um mistök sem ég kalla gjald sem félagið er til í að greiða til að taka á móti frábærum ungum leikmönnum.

Sigurinn á móti Val hér heima var kærkominn en þar spilaði liðið frábæran leik og má með sanni segja að sigurinn hafi verið verðskuldaður. Í kjölfarið förum við inn á Kaplakrika í leik við FH. Þar byrjum við illa en komum ótrúlega sterkir til baka og komum okkur í 1-2 stöðu þegar kortér er eftir. Hlutirnir féllu á móti okkur þar og frábært lið FH setur sigurmark undir lok leiks. Frammistaðan í leiknum var þó til fyrirmyndar.

Í gær fengum við Blikana svo í heimsókn. Við töpum 1-0 á víti sem dæmt var á einn af efnilegustu leikmönnum landsins. Ég get ekki farið fram á meira af mínu liði en strákarnir sýndu í þessum leik, þó að það sé ógeðslegt að tapa svona leikjum.

Sem sagt ekki endilega sú byrjun sem við óskuðum okkur en þó klárlega grunnur af spilamennsku sem við getum byggt á til að ná í úrslit í næstu leikjum því á endanum eru það úrslitin sem telja.

Það sem fær mig til að setjast niður núna og skrifa þessar línur er einfaldlega þakklæti fyrir þann stuðning sem þið hafið sýnt strákunum þessa fyrstu leiki. Það fyllir mig stolti að vita af stuðningsmönnum sem mæta til að styðja sitt lið þrátt fyrir mótlæti, fyrir mig er það sannur stuðningur. Í meðbyr er ekkert mál að mæta og tralla og syngja en í mótlætinu sýnið þið hvernig KA virkar.

Síðan ég kom hingað í nóvember hef ég algjörlega heillast af samstöðu og krafti félagsins og það finnst mér endurspeglast í ykkur kæra KA fólk. Mín ósk er að þið haldið áfram að mæta og sýna mátt ykkar, sérstaklega þegar á reynir.

Ég tók þátt í stefnumótun félagsins og vinn eftir þeirri stefnu sem mótuð var. Við höfum fulla trú á að sú leið sem við erum að byrja á sé hin rétta leið. Félagið vill taka skrefin áfram en til þess þarf grunnurinn af KA mönnum að vera til staðar. Í síðustu leikjum höfum við byrjað leikina á 6 uppöldnum KA mönnum. Við erum í grunnvinnunni núna og það á eftir að skila sér.

Ég vil enda þetta á gildunum sem við í meistaraflokki vinnum eftir. Þetta eru gildi sem strákarnir völdu sjálfir með hjálp íþróttasálfæðings. Þessi gildi eiga að einkenna liðið okkar, einkenna leik okkar og starf. Ef þið horfið yfir leik liðsins síðustu leiki þá sjáið þið að gildin sem þeir vinna eftir skína skært:

Samstaða – Vinnusemi – Jákvæðni

Samstaðan er ótrúleg í hópnum sem reynir einmitt á í mótlæti
Vinnusemin í öllum leikjum er framúrskarandi.
Jákvæðnin í liðinu er eitthvað sem mér finnst ótrúlega sérstakt í ljósi úrslita.

Kær KA kveðja
Óli Stefán Flóventsson
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner