fös 17. maí 2019 15:30
Elvar Geir Magnússon
Það er ávanabindandi að vinna
Pep Guardiola, stjóri City.
Pep Guardiola, stjóri City.
Mynd: Getty Images
Manchester City mætir Watford í bikarúrslitaleiknum á morgun og getur tryggt sér ensku þrennuna á þessu tímabili. City hefur þegar unnið enska meistaratitilinn og deildabikarinn.

„Það er svo ávanabindandi að vinna. Þegar þú vinnur þá ferðu í sturtu og vilt svo vinna meira og meira," segir Pep Guardiola, hinn magnaði stjóri City.

„Að vinna gerir líf þitt betra og auðveldara. Að vinna hjálpar þér að vinna meira og það hjálpar að gera þetta félag betra. Þó við vinnum ekki þá breytir það ekki lífi mínu eða skoðunum á því hvað við þurfum að gera á næsta tímabili."

City náði ekki að komast alla leið í Meistaradeildinni en liðið tapaði gegn Tottenham í 8-liða úrslitum á dramatískan hátt. VAR myndbandstæknin breytti öllu í þeim leik.

„Það tók smá tíma að jafna sig á því. Tveimur og hálfum degi síðar mættum við Tottenham í deildinni og það var erfitt. Það var ótrúlegt að sjá 60 þúsund manns fagna því að við værum í undanúrslitum Meistaradeildarinnar og svo skyndilega var það tekið frá okkur. Þá ferð skyndilega úr gleði í að vera eyðilagður."

„Ég gat ekki sagt við leikmenn að gleyma þessu. Ég sagði þeim að lifa með sársaukanum. Við þurftum að sætta okkur við þetta. Lífið er ekki auðvelt og það kemur ekki til þín eftir pöntunum. Fótbolti er tilfinningamál en hvernig við svöruðum og unnum Tottenham, Manchester United og Burnley... þetta lið er ótrúlegt," segir Guardiola.

„Þetta er einn besti hópur leikmanna sem ég hef þjálfað á ævinni en líka einar bestu manneskjur sem ég hef verið í kringum. Eftir að hafa fengið 100 stig vilja þeir vinna aftur og aftur."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner