banner
   sun 17. maí 2020 22:30
Brynjar Ingi Erluson
Nani: Ég var hræddur við Ferguson
Nani og Sir Alex Ferguson töluðu ekki saman á leiðinni heim
Nani og Sir Alex Ferguson töluðu ekki saman á leiðinni heim
Mynd: Getty Images
Portúgalski vængmaðurinn Nani var í spjalli í hlaðvarpsþætti Manchester United en hann rifjaði þar upp atvik sem átti sér stað í leik gegn Fulham árið 2010.

Nani gekk til liðs við United árið 2007 og var í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins. Hann var oft með skemmtilega takta á vellinum á tíma sínum þar en það var þó lítið jafnvægi í frammistöðum hans.

Hann rifjaði upp atvik sem átti sér stað gegn Fulham en United var þá 2-1 yfir og fékk liðið vítaspyrnu. Ryan Giggs var þá vítaskytta liðsins en Nani steig upp til að taka spyrnuna.

„Ég var með ótrúlegt sjálfstraust. Við fengum vítaspyrnu og Ryan Giggs tók vanalega spyrnurnar en ég var viss um að ég myndi skora og Giggs sagði ekkert," sagði Nani.

„Ég tók vítið en klúðraði. Við hefðum komist í 3-1. Ferguson drap mig nánast inn í klefa. „Hver í andskotanum heldur þú að þú sért? Hver gaf þér leyfi til að taka spyrnuna? Ryan??" Svo hraunaði hann yfir Giggs og spurði hann af hverju hann leyfði mér að taka spyrnuna," sagði Nani.

„Guð minn góður. Þetta var ótrúlegur dagur," sagði hann ennfremur.

Fulham jafnaði undir lok leiks og voru lokatölur 2-2. Nani og Ferguson voru svo samferða heim eftir leikinn.

„Ég keyrði hann heim og hann talaði ekki við mig alla ferðina. Mér leið mjög óþægilega," sagði Nani ennfremur.

Það tók Nani tíma að læra ensku og var hann svolítið smeykur við Ferguson fyrstu árin.

„Í byrjun var ég mjög hræddur við hann. Hann var eins og faðir svona með hluti eins og þegar maður gerir mistök eða eitthvað vitlaust. Ég sá hann tala við aðra leikmenn og ég vildi vera með en ég hugsaði allt um hvað ég ætti að segja. Þannig ég var hræddur við hann þangað til ég skildi tungumálið betur og náði að tjá mig," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner