sun 17. maí 2020 23:30
Brynjar Ingi Erluson
„Sancho getur unnið Ballon d'Or"
Jadon Sancho gæti farið frá Dortmund í sumar
Jadon Sancho gæti farið frá Dortmund í sumar
Mynd: Getty Images
Jadon Sancho, leikmaður Borussia Dortmund í Þýskalandi, getur unnið eftirsóttustu verðlaunin í knattspyrnuheiminum, Ballon d'Or, en þetta segir Owen Hargreaves, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins á BT Sport.

Sancho ólst upp hjá bæði Watford og síðan Manchester City áður en hann ákvað að skella sér í ævintýri til Þýskalands og semja við Borussia Dortmund.

Hann hefur verið lykilmaður í liðinu síðustu tvö tímabil en hann hefur undanfarna mánuði verið orðaður við Manchester United.

Hargreaves ólst upp í Kanada með foreldrum sínum en flutti til Þýskalands þegar hann var aðeins 16 ára gamall og spilaði með Bayern München til ársins 2007. Hann þekkir því þetta ævintýri hjá Sancho og ræddi framtíð hans.

„Jadon þekkir sinn leik og hvað er best í stöðunni fyrir hann en United er með ótrúlega góða unga leikmenn sem eru að brjóta sér leið í liðið og allir hæfileikaríkir fótboltamenn væru til í að vera partur af því," sagði Hargreaves.

„Liverpool og Manchester City hafa augljóslega náði forystunni á önnur lið í deildinni en United gæti komist í sama klassa. Þetta fer í hringi og United mun snúa aftur og það myndi svo sannarlega hjálpa að fá leikmann eins og Sancho."

„Hann þekkir Manchester vel því hann var hjá City. Það lið sem fær hann er afar heppið. Ég veit að Sancho mun kosta mikinn pening en þarna ertu með leikmann næsta áratuginn og það verður einstakt að fylgjast með honum."

„Getur hann unnið Ballon d'or verðlaunin? Já, því hæfileikarnir hans eru ótrúlegir. Hann hefur haft ótrúleg áhrif nú þegar og það er magnað að fylgjast með þessu,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner