Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 17. maí 2021 21:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Fjögur lið með fimm stiga forskot - Valur vann í Frostaskjóli
Valur vann á móti KR.
Valur vann á móti KR.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Það gengur ekki mikið hjá KR á heimavelli.
Það gengur ekki mikið hjá KR á heimavelli.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hannes varði frábærlega undir lokin.
Hannes varði frábærlega undir lokin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH er með tíu stig.
FH er með tíu stig.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Markalaust á Akranesi.
Markalaust á Akranesi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjórðu umferð Pepsi Max-deildar karla er lokið, hún var að klárast með þremur leikjum.

Eftir fjórar umferðir eru fjögur lið með tíu stig, en svo næst koma nýliðar Leiknis með fimm stig.

Valur kom til baka gegn erkifjendum sínum
Valur og KR áttust við í Reykjavíkurslag í Vesturbænum. Úr varð frábær fótboltaleikur.

Heimamenn í KR tóku forystuna eftir aðeins níu mínútna leik. „Kennie Chopart gerir hrikalega vel í að vinna boltann ofarlega og keyra inn á teiginn, sendir boltann svo fyrir á fjær þar sem Pálmi Rafn tekur klippuna í Guðjón Baldvins og inn!" skrifaði Baldvin Már Borgarsson í beinni textalýsingu.

Pálmi sparkaði boltanum fast í Guðjón, en sóknarmaðurinn var með réttan haus á réttum tíma. Landsliðsmarkvörðurinn átti að gera betur. „Hannes var nánast með boltann í lúkunum en boltinn lekur inn, hrikalega vont hjá Hannesi!"

Þegar leið á fyrri hálfleikinn komst Valur meira inn í leikinn og þeir jöfnuðu á besta tíma. Sebastian Hedlund skallaði hornspyrnu í markið rétt áður en flautað var til hálfleiks. Staðan því jöfn þegar flautað var til hálfleiks.

Heimir Guðjónsson fór vel yfir málin með sínum mönnum í hálfleik. Á þriðju mínútu seinni hálfleiks skoraði Haukur Páll Sigurðsson með þrususkoti fyrir utan teig. Sex mínútum síðar bætti Sigurður Egill Lárusson við öðru marki eftir góðan undirbúning frá Kristni Frey Sigurðssyni.

Staða Valsmanna þægileg og þeir hefðu getað bætt við öðru marki áður en KR gerði tvöfalda breytingu á 60. mínútu. Kjartan Henry Finnbogason, sem var orðaður við Val líka fyrir nokkrum vikum síðan, sneri þá aftur íslenska boltann. Hannes varði mjög vel frá Kjartani stuttu eftir að sóknarmaðurinn kom inn á.

KR fékk svo víti þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Stefán Árni Geirsson féll þá - frekar skringilega - í teignum en víti var dæmt. Pálmi Rafn Pálmason fór á punktinn og skoraði af öryggi. Stuttu síðar fékk Stefán Árni Geirsson dauðafæri til að jafna en hann skallaði boltann fram hjá markinu.

KR komst ekki lengra og lokatölur 2-3 fyrir Val sem er eitt af þessum fjórum liðum með tíu stig í fjórum efstu sætunum. Hannes varði frábærlega frá Óskari Erni undir blálokin. KR er með fjögur stig. Vesturbæjarstórveldið hefur hikstað eftir sigur á Breiðablik í fyrsta leik.

FH líka með tíu stig
Hin liðin sem eru með tíu stig eru Víkingur, KA og FH. Fimleikafélagið gerði góða ferð í Kórinn í kvöld.

Ferðin byrjaði ekki vel fyrir FH því Birnir Snær Ingason kom HK-ingum yfir á 28. mínútu. Forysta HK var ekki langlíf því Ágúst Hlynsson, sem hefur komið mjög sterkur í lið FH, jafnaði metin fimm mínútum síðar.

Það dró til tíðinda þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. HK fékk þá víti þegar Hjörtur Logi Valgarðsson braut af Örvari Eggertssyni. Stefán Alexander Ljubicic fór á punktinn en Gunnar Nielsen las hann og varði vítaspyrnuna.

Það var gríðarlega mikilvægt fyrir FH því þeim tókst að landa sigrinum í seinni hálfleiknum. Ágúst skoraði sitt annað mark á 57. mínútu og Steven Lennon innsiglaði svo sigurinn undir lokin eftir undirbúning frá Ágústi. Það er spurning hvort þetta sé ekki rétti tíminn til að taka Ágúst inn í Eyjabitaliðið þitt. Smelltu hér til að fara á síðu Draumaliðsdeildarinnar.

FH er sem fyrr segir með tíu stig og er á toppnum á markatölu. HK er í níunda sæti með tvö stig.

Markalaust í botnbaráttuslag
Á Skaganum mættust heimamenn og Stjarnan í botnbaráttuslag. Þessi tvö lið hafa ekki litið vel út í upphafi tímabils.

Þau litu ekki mjög vel út í kvöld í leik sem endaði með markalausu jafntefli. Bæði lið fengu færi til að skora en inn vildi boltinn ekki og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Það má gera ráð fyrir því að þjálfara beggja liða hafi áhyggjur af byrjun mótsins. ÍA er á botninum með tvö stig og Stjarnan er einnig með tvö stig. Heilt yfir eru fjögur lið með tvö stig sem er minnsti stigafjöldinn í deildinni; HK, Stjarnan, Fylkir og ÍA.

HK 1 - 3 FH
1-0 Birnir Snær Ingason ('28 )
1-1 Ágúst Eðvald Hlynsson ('33 )
1-1 Stefan Alexander Ljubicic ('40 , misnotað víti)
1-2 Ágúst Eðvald Hlynsson ('57 )
1-3 Steven Lennon ('86 )
Lestu nánar um leikinn

ÍA 0 - 0 Stjarnan
Lestu nánar um leikinn

KR 2 - 3 Valur
1-0 Guðjón Baldvinsson ('9 )
1-1 Sebastian Starke Hedlund ('44 )
1-2 Haukur Páll Sigurðsson ('48 )
1-3 Sigurður Egill Lárusson ('54 )
2-3 Pálmi Rafn Pálmason ('70 , víti)
Lestu nánar um leikinn

Leikir kvöldsins:
18:30 Keflavík - KA
19:15 ÍA - Stjarnan
19:15 KR - Valur
19:15 HK - FH
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner