sun 17. júní 2018 10:16
Elvar Geir Magnússon
Virtir markvarðaþjálfarar hrósa Hannesi
Icelandair
Hannes sæll og glaður eftir leik í gær.
Hannes sæll og glaður eftir leik í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson var valinn maður leiksins af FIFA og einnig af öllum fjölmiðlum eftir magnaða frammistöðu hans í 1-1 jafnteflinu gegn Argentínu í gær.

„Þetta er allt saman hálf óraunverulegt. Ég vil ekki fara á flug í lýsingarnar en þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig það er að verja víti frá besta leikmanni í heimi í fyrsta leik Íslands á Heimsmeistaramóti. Það er algjört rugl að þetta hafi gerst," sagði Hannes eftir leikinn.

Guðmundur Hreiðarsson, markvarðaþjálfari Íslands, segist hafa fengið skilaboð frá nokkrum af virtustu markvarðaþjálfurum Evrópu eftir leik í gær.

„Margir kollegar í Evrópu hafa verið að senda mér SMS, menn sem eru markvarðaþjálfarar hjá öðrum liðum. Þeir hafa verið að hrósa Hannesi og okkar vinnu. Þú færð ekki stærra hrós heldur en það," segir Guðmundur.

„Hann var geggjaður, rosalega fókuseraður. Hann hefur verið það allan tímann sem við höfum verið saman, mjög einbeittur. Hann sýnir okkur enn aftur hvað stóra sviðið hentar honum vel. Það er í raun ótrúlegt að stærri félög hafi ekki 'spottað' stöðugleika hans í þessum stóru leikjum. Markvarsla snýst um að gera fá mistök og hann hefur gert fá mistök í síðustu þremur undankeppnum með okkur."

Hannes fékk 10 í einkunn hér á Fótbolta.net eftir leikinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner