mán 17. júní 2019 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pellegrini svarar Vallejo: Spánverjar ættu að læra af okkur
Mynd: Getty Images
Ítalía og Spánn áttust við í fyrstu umferð riðlakeppni EM U21 landsliða á dögunum.

Spánn komst yfir snemma leiks en Ítalir, sem hýsa Evrópumótið, höfðu á endanum betur og unnu 3-1.

Jesus Vallejo, varnarmaður spænska liðsins og Real Madrid, kvartaði undan Ítölunum að leikslokum

„Fyrir mót var okkur sagt að rauð spjöld yrðu gefin fyrir spörk sem ná yfir hnéhæð, að dómarar sem fylgdu ekki þessari reglu myndu ekki fá að dæma fleiri leiki. Það virðist þó ekki vera raunin," sagði Vallejo.

„Ítalir spiluðu skítugt en það er ekki afsökun fyrir tapinu. Ég skil ekki hvers vegna leikmaðurinn sem braut illa á Ceballos var ekki rekinn útaf."

Þarna var hann að tala um brot á elleftu mínútu leiksins, þegar Arturo Calabresi sparkaði í Dani Ceballos og fékk gult spjald fyrir.

Lorenzo Pellegrini, leikmaður Roma og ítalska U21 liðsins, er búinn að svara Vallejo.

„Spænsku leikmennirnir verða að átta sig á því að fótbolti er mjög líkamleg íþrótt. Þeir létu sig falla við minnstu snertingar í leiknum og ýktu hvert einasta fall eins og þeir mögulega gátu," sagði Pellegrini.

„Ég tek hattinn niður fyrir tæknilegri getu þeirra en hvað allt annað varðar ættu þeir að læra af okkur."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner