mán 17. júní 2019 22:40
Ívan Guðjón Baldursson
Roberto Martinez: Lukaku þarf að finna sér nýtt félag
Lukaku og Pogba eru báðir orðaðir við brottför frá Manchester.
Lukaku og Pogba eru báðir orðaðir við brottför frá Manchester.
Mynd: Getty Images
Framtíð belgíska framherjans Romellu Lukaku er óljós en Roberto Martinez, landsliðsþjálfari hans hjá Belgíu, vill sjá hann skipta um félag.

Lukaku átti erfitt uppdráttar á nýliðnu tímabili og skoraði 15 mörk í 45 leikjum. Inter er talið eina félagið sem hefur áhuga á sóknarmanninum en kaupverðið og launakröfurnar eru ansi háar.

Manchester United er talið vilja fá minnst 75 milljónir punda fyrir Lukaku, sem er sama upphæð og Rauðu djöflarnir greiddu til að fá hann frá Everton sumarið 2017.

„Það er augljóst að hann þarf að skipta um félag, það væri gott fyrir alla aðila. Nú er mikilvægt að Romelu finni rétta félagið fyrir sig," sagði Martinez við HLN.

Lukaku er 26 ára og þykir einn af betri sóknarmönnum heims þó hann hafi ekki náð sér á strik að undanförnu. Hann hefur gert 48 mörk í 81 leik fyrir Belgíu og 42 mörk í 96 leikjum fyrir Man Utd. Þá gerði hann 87 mörk í 166 leikjum hjá Everton.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner