Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 17. júní 2019 13:13
Ívan Guðjón Baldursson
Totti kvaddi Roma í dag - Opnaði sig á fréttamannafundi
Mynd: Getty Images
Francesco Totti er hættur hjá AS Roma eftir 30 ár hjá félaginu. Hann byrjaði að æfa með unglingaliðinu 1989, lagði skóna á hilluna 2017 og hefur síðan þá verið í starfi sem tæknilegur ráðgjafi.

Tæknilegir ráðgjafar eru mikilvægir í knattspyrnuheiminum í dag. Mörg mismunandi heiti eru til yfir starfið sem þeir sinna vegna þess hversu fjölbreytt það er. Yfirleitt starfa þeir sem tenging á milli knattspyrnustjórans og stjórnar félagsins.

Totti hélt fréttamannafund og svaraði öllum spurningum fréttamanna ítarlega. Hann hélt ekki aftur af sér og lét allt flakka, en Roma hefur ekki verið á sem besta stað undanfarin ár, bæði árangurslega og fjárhagslega séð.

„Ég vonaði að þessi dagur kæmi aldrei. Þetta er mjög erfitt fyrir mig, mér líður eins og þetta sé verra heldur en að deyja," sagði Totti. „Það er ekki mér að kenna að ég sé að yfirgefa félagið, ég neyðist til þess. Það tók mig marga mánuði að komast að þessari niðurstöðu.

„Ég fékk aldrei tækifæri til að sinna starfi mínu hjá félaginu. Það hlustaði enginn á það sem ég sagði. Ég sat kannski tíu fundi á tveimur árum og var útilokaður frá allri ákvarðanatöku.

„Ég hef verið stunginn í bakið innan félagsins. Ég ætla ekki að nefna nöfn en það er fólk innan félagsins sem vill ekki hafa mig hérna. Þetta er fólk sem er að skaða Roma og er ekki að gera hluti fyrir hag félagsins.

„Pallotta (eigandinn) er aldrei hérna. Hann hefur ekki hugmynd um hvað er í gangi. Ég þekki alla hjá félaginu, hvort sem þeir eru í stjórn eða að þrífa klósettin. Ég held að Pallotta frétti 1/10 af sannleikanum, enda býr hann í Boston.

„Þetta félag hefur bara farið niður á við síðan Ameríkanarnir komu. Þeir tóku yfir félagið og hafa verið að bola okkur Rómverjum í burtu hægt og rólega."


Totti nefndi Franco Baldini, stjórnarmann Roma sem er búsettur í London, sem helstu ástæðuna fyrir brottför sinni frá félaginu.

„Sama hvaða hugmyndir við komum með frá Róm þá voru allar ákvarðanir teknar í London. Þetta var algjör tímasóun, það var aldrei hlustað á okkur. Eina skiptið var þegar við fengum að ráða Claudio Ranieri. Hann er topp maður."

Fréttamannafundurinn er enn í gangi og hefur Totti verið einstaklega opinn og heiðarlegur í svörum sínum. Hægt er að skoða textalýsingu frá fundinum hér.
Athugasemdir
banner
banner