banner
   fös 17. ágúst 2018 21:10
Brynjar Ingi Erluson
Breiðablik bikarmeistari kvenna árið 2018
Blikar fagna af mikilli ástríðu á Laugardalsvellinum í kvöld
Blikar fagna af mikilli ástríðu á Laugardalsvellinum í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan 1 - 2 Breiðablik
0-1 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('18 )
0-2 Guðrún Arnardóttir ('36 )
1-2 Telma Hjaltalín Þrastardóttir ('87 )

Breiðablik er bikarmeistari kvenna árið 2018 eftir að hafa lagt Stjörnuna að velli, 2-1, á Laugardalsvelli í kvöld. Þetta er í tólfta sinn sem Breiðablik hampar bikarnum.

Markadrottningin Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Blikum á bragðið á 18. mínútu eftir frábæra sendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur.

María Eva Eyjólfsdóttir, leikmaður Stjörnunnar, gerði sig þá seka um slæm mistök er hún hitti ekki háa sendingu Ástu Eir Árnadóttur. Agla nýtti sér það og brunaði upp vænginn áður en hún kom boltanum fyrir á Berglindi sem skoraði.

Guðrún Arnardóttir bætti við öðru marki fyrir Blika á 36. mínútu en Agla María átti þá aukaspyrnu inn á teiginn þar sem Guðrún var mætt til að skalla boltann í netið.

Megan Lea Dunnigan var nálægt því að minnka muninn fyrir Stjörnuna undir lok fyrri hálfleiks en skalli hennar fór í stöngina.

Stjarnan varði fyrir mikilli blóðtöku eftir klukkutímaleik en Harpa Þorsteinsdóttir lenti þá í samstuði og fór sárþjáð af velli. Þrátt fyrir það tókst liðinu að jafna á 87. mínútu.

Telma Hjaltalín Þrastardóttir skoraði þá stórkostlegt mark. Hún vann boltann á miðjunni, fór framhjá Hildi Antonsdóttur áður en hún lyfti boltanum snyrtilega yfir Sonný í markinu, stöng og inn.

Lengra komst Stjarnan ekki og er Breiðablik því bikarmeistari í tólfta sinn!

Stjarnan: Berglind Hrund Jónasdóttir (M), Lára Kristín Pedersen, Ásgerður Stefanía Baldursdóttir (F) ('88, Ana Victoria Cate), Sigrún Ella Einarsdóttir, Telma Hjaltalín Þrastardóttir, Anna María Baldursdóttir, María Eva Eyjólfsdóttir, Megan Lea Dunnigan, Harpa Þorsteinsdóttir ('65, Guðmunda Brynja Óladóttir), Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir ('83, Bryndís Björnsdóttir).

Breiðablik: Sonný Lára Þráinsdóttir (M), Agla María Albertsdóttir, Heiðdís Lillýardóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir('76, Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir), Berglind Björg Þorvalsdóttir, Fjolla Shala, Ásta Eir Árnadóttir, Alexandra Jóhannsdóttir, Kristín Dís Árnadóttir, Hildur Antonsdóttir, Guðrún Arnardóttir.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner