Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 17. september 2018 16:20
Magnús Már Einarsson
Yfirlýsing frá Fjölni: Samanlagt tap 2011-2017 er 6,9 milljónir
Varasjóður tæmdur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnismenn hafa sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar frétta þess efnis að 27 milljóna tap hafi verið á rekstri meistaraflokks karla hjá félaginu í fyrra.

„Ef það koma engar leikmannasölur eða nýir tekjustraumar fyrir árið 2019 er ljóst að það þarf að skera verulega niður í meistaraflokki karla," sagði í skýrslu hjá Reykjavíkurborg um fjárhag meistaraflokks Fjölnis.

Fjölnismenn segja í yfirlýsingu að samtals 6,9 milljóna króna tap hafi verið á rekstrinum á árunum 2011 til 2017. Varasjóður hafi verið til staðar en hann sé nú búinn.

Yfirlýsing frá Fjölni
Um leið og við Fjölnismenn fögnum umræðu um rekstur og fjárhagsstöðu liða í Pepsi-deildinni þá viljum við koma eftirfarandi á framfæri. Eins og fram hefur komið þá nam tap á rekstri deildarinnar síðastliðið ár 27 m.kr. Uppsafnað/samanlagt tap á rekstri meistaraflokks karla hjá Fjölni fyrir árin 2011-2017 nemur hins vegar 6,9 m.kr. Ástæðan fyrir þessu er sú að sum árin hefur verið umtalsverður hagnaður af rekstri deildarinnar meðan önnur ár hafa verið rekin með tapi.

Megin ástæðan fyrir þessum sveiflum í rekstri deildarinnar liggur í tekjum vegna leikmannasölu sem hafa verið óreglulegar milli ára. Þau ár sem þessar tekjur hafa verið umtalsverðar hefur verið hagnaður af rekstri deildarinnar og við byggt upp varasjóð sem nýttur hefur verið til að brúa taprekstur.

Í lok árs 2017 var þessi varasjóður okkar tæmdur. Í ljósi þess töldum við rétt að flagga því í ársreikningi félagsins fyrir árið 2017 að kæmi ekki til leikmannasölu eða nýrra tekjustofna á árinu 2018 þá þyrfti að huga að hagræðingu í rekstri deildarinnar þar sem ekki kemur til álita að fjármagna taprekstur með lántöku.

Virðingarfyllst
Stjórn knd Fjölnis
Athugasemdir
banner