Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 17. nóvember 2018 17:17
Elvar Geir Magnússon
Aron Einar í öðruvísi hlutverki - Hörður æfði ekki
Icelandair
Aron Einar var ásamt starfsliði Íslands á æfingu dagsins en hann mun ekki spila gegn Katar.
Aron Einar var ásamt starfsliði Íslands á æfingu dagsins en hann mun ekki spila gegn Katar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er fallegt umhverfið sem íslenska landsliðið æfði í þennan laugardaginn en næsta verkefni verður vináttulandsleikur gegn Katar á mánudagskvöld.

Leikurinn fer fram í belgíska bænum Eupen. Æft verður á keppnisvellinum á morgun en æfing dagsins var í Spa, bæ sem er þekktastur fyrir fræga Formúlu 1 kappakstursbraut.

Eins og við greindum frá í morgun er Alfreð Finnbogason farinn til Þýskalands þar sem læknar skoða meiðsli hans nánar en hann meiddist í upphitun gegn Belgíu. Vonast er til þess að meiðslin séu aðeins minniháttar.

Aron Einar Gunnarsson mun ekki spila gegn Katar en það var ákveðið fyrir verkefnið. Eins og hann sagði í viðtali eftir leikinn gegn Belgíu verður hann þó enn í kringum liðið. Aron fylgdist með æfingunni í dag ásamt starfsliði landsliðsins.

Ekki hefur verið opinberað hver mun bera fyrirliðabandið í leiknum gegn Katar en líklegast er að það verði Kári Árnason.

21 leikmaður tók þátt í æfingu dagsins en Hörður Björgvin Magnússon hefur verið að glíma við meiðsli og var í meðhöndlun sjúkraþjálfara meðan á æfingu stóð.

Á morgun verður fréttamannafundur hjá Erik Hamren landsliðsþjálfara og þá kemur staðan á mönnum fyrir lokalandsleik ársins betur í ljós en ótrúleg meiðslahrina hefur verið að elta liðið.
Athugasemdir
banner
banner