banner
   lau 17. nóvember 2018 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Erlendu leikmenn Fjölnis á förum - Hvað gerist með Almar?
Ásmundur Arnarsson er tekinn aftur við Fjölni.
Ásmundur Arnarsson er tekinn aftur við Fjölni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Almarr Ormarsson.
Almarr Ormarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fjölnir féll úr Pepsi-deildinni síðastliðið sumar og mun spila í Inkasso-deildinni næsta sumar.

Ólafur Páll Snorrason vék frá störfum sem þjálfari liðsins og var Ásmundur Arnarsson ráðinn aftur til félagsins. Ásmundur þjálfaði Fjölni frá 2004 til 2011 með mjög góðum árangri og því er hægt að segja að þetta sé skynsamleg ráðning hjá Fjölnismönnum.

Fjölnir hefur misst nokkra leikmenn eftir að síðasta tímabili lauk. Tveir af efnilegustu leikmönnum liðsins, Ægir Jarl Jónasson og Birnir Snær Ingason fóru í KR og Val og þá fór Þórir Guðjónsson í Breiðablik. Fjölnir hefur misst mikinn sóknarþunga.

„Það verður krefjandi," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, aðspurður að því hvort það verði erfitt verkefni að leysa þessa leikmenn af hólmi.

„Það er svolítið mikið farið fram á við hjá okkur og við verðum að sjá hvað við getum gert í því."

Ætlar Fjölnir þá að treysta á yngri leikmenn félagsins eða að sækja sér leikmenn annars staðar frá?

„Það er í bland hvoru tveggja, það er mikið af ungum og efnilegum strákum hérna, þeir fá sitt tækifæri. Við erum jafnframt að meta stöðuna og sjá hvar við þurfum að styrkja okkur og hvernig. Við munum skoða það."

Fleiri leikmenn eru mögulega á förum frá Fjölni á næstunni. Almarr Ormarsson er að skoða sín mál. Hann gæti leikið í Pepsi-deildinni á næsta tímabili.

„Það er ekki ljóst með hann, hann er að skoða sín mál," sagði Ásmundur sem býst jafnframt við því að þeir erlendu leikmenn sem spiluðu með Fjölni síðasta sumar verði ekki áfram.

Þeir erlendu leikmenn sem spiluðu með Fjölni síðasta sumar voru Mario Tadejevic, Igor Jugovic og Valmir Berisha. „Það er ekki alveg ljóst en ég reikna ekki með því að þeir verði áfram."

Fjölnismenn byrjuðu að æfa fyrir tveimur vikum síðan og Ásmundur kveðst bara spenntur fyrir komandi misserum.

„Mér líst vel á þessa stráka, efnilegir og flottir strákar. Hópurinn er mjög ungur eins og er, en spennandi."

„Ég lít á þetta sem mjög spennandi verkefni, skemmtilegir uppbygingatímar hérna," sagði Ásmundur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner