mán 18. febrúar 2019 12:22
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Á sama tíma og krafa er um árangur fara máttarstólpar úr liðinu
Willum Þór samdi við BATE fyrir helgi.
Willum Þór samdi við BATE fyrir helgi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Kristján fór í Álasund.
Davíð Kristján fór í Álasund.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst Gylfason er þjálfari Breiðabliks.
Ágúst Gylfason er þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kwame Quee.
Kwame Quee.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Bara í síðasta sumarglugga og svo þessum þá er Willum níundi leikmaðurinn sem er að fara frá okkur. Það er svolítið mikið," segir Eysteinn Lárusson, framkvæmdastjóri hjá Breiðabliki, í viðtali við útvarpsþátt Fótbolta.net.

Eysteinn heimsótti þáttinn á laugardaginn og ræddi um stöðu mála hjá Blikum en þeir hafa verið duglegir að selja leikmenn út í atvinnumennsku undanfarin ár.

Í liðinni viku var Davíð Kristján Ólafsson seldur til Álasunds og Willum Þór Willumsson til BATE. Áður hafði Gísli Eyjólfsson farið til Mjallby og Andri Fannar Baldursson, sem var farinn að banka á dyrnar, fór til Bologna.

„Það er verið að gera virkilega góða hluti í yngri flokkunum og við erum með reynslumikla og flotta aðila í þjálfuninni. Það er ekki mikil starfsmannavelta í því hjá okkur. Svo erum við með góða aðstöðu og það er yfirlýst stefna að gefa tækifæri í meistaraflokknum," segir Eysteinn.

Draumar og tilfinningar í þessu
Hann segir að viðræður við erlend félög geti oft verið kostuleg og fyrsta tilboð sé oft hlægilega lágt.

„Já það er hægt að segja að þau séu mörg hlægileg. Það væri hægt að skrifa nokkrar bækur um þetta allt saman. Maður þarf alltaf að passa sig á að gera þetta í réttri röð."

„Það er alveg klárt mál hjá okkur að alltaf þegar það kemur formlegt tilboð þá er leikmaðurinn látinn vita, sama hvernig tilboðið er. Það er kannað hvort þetta sé raunverulegur áhugi og hvort leikmaðurinn sjálfur hafi áhuga. Markmiðið er alltaf að reyna að láta hlutina ganga upp ef tilboð er ásættanlegt. Hagsmunir allra aðila eru hafðir að leiðarljósi. Við erum komnir með þannig sögu að við erum farnir að skoða tilboð í samræmi við önnur tilboð sem við höfum fengið," segir Eysteinn.

„Það eru draumar og tilfinningar í þessu og ef við fáum ásættanleg boð reynum við að láta hagsmuni allra á borðið og koma mönnum út. Þetta er líka viðskiptamódel og hefur í raun rekið klúbbinn hjá okkur."

Sala Willums til BATE er ein af þeim stærri sem Breiðablik hefur gert en Hvít-Rússneska liðið er fastagestur í Evrópupeppnum.

„Við erum sáttir. Auðvitað er þetta trúnaðarmál en þetta er klárlega með betri sölum."

Fjórði útlendingurinn gæti komið
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, þarf að starfa í því umhverfi að sífellt er verið að kroppa í leikmenn hans. Erfitt er fyrir hann að vita hvaða leikmenn fara og hverjir verða áfram. Undir hans stjórn enduðu Blikar í öðru sæti í deild og bikar á síðasta tímabili.

„Þetta er erfitt. Á sama tíma og við erum að gera kröfu um árangur er verið að taka máttarstólpa úr liðinu. Það er ekki auðvelt. Gústi er algjör toppþjálfari og sýnir þessu skilning. Þetta hefur líka gert það að verkum að aðrir fá tækifæri. Gott dæmi er þegar Kristinn Jónsson fer og Davíð Kristján fer í djúpu laugina og stendur sig vel," segir Eysteinn.

„Við stöndum fyrir að leikmenn úr unglingastarfinu fái tækifæri en á sama tíma verðum við að halda styrkleika liðsins þar sem við viljum vera. Við viljum vera í Evrópukeppni og berjast þarna uppi. Ég held að til þess að það takist þá þurfum við þó að styrkja okkur eitthvað."

„Við höfum ekki verið að taka marga erlenda leikmenn en erum þegar komnir með þrjá. Við hugsuðum út í að það yrði mikið að taka inn fjórða en ef þess þarf í einhvern tíma þá gerum við það. Við skoðum hvaða lausnir eru. Gústi stjórnar þessu alfarið en við getum ekki lokað á neitt."

Eysteinn segir að þeir þrír erlendu leikmenn sem nú eru hjá Breðabliki gefi félaginu mikið og tekur undir að þeir bæti þá ungu leikmenn sem fyrir eru.

„Við erum einstaklega heppnir með þessa þrjá leikmenn og það er ekkert vesen á þeim. Jonathan Hendrickx kom frá FH og þekkir landið vel, Thomas Mikkelsen var algjör happafengur í fyrra og er með fjölskyldu sína hér og hún hefur aðlagast vel og svo kom Kwame Quee sem er X-faktor. Hann er skemmtileg týpa og er farinn að vinna hjá okkur í félagsheimilinu. Hann er að taka fögnin sem hann tekur í leikjunum með krökkunum."

Í viðtalinu í útvarpsþættonum ræddi Eysteinn einnig um umgjörð Blikaliðsins og gervigrasið sem verið er að leggja á aðalvöllinn. Smelltu hér til að hlusta á þetta áhugaverða viðtal sem Elvar Geir og Benedikt Bóas tóku.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner