Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mán 18. febrúar 2019 14:30
Magnús Már Einarsson
Emil Hallfreðs æfir hjá Udinese - Framhaldið ennþá óráðið
Emil Hallfreðsson.
Emil Hallfreðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenski landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er þessa dagana staddur í Udine á Ítalíu þar sem hann nýtir æfingaaðstöðuna hjá sínu gamla félagi Udinese.

Emil er í endurhæfingu eftir að hann fór í aðgerð á hné í byrjjun desember en í síðasta mánuði rifti hann samningi við Frosinone sem er í fallsæti í Serie A. Emil kom til Frosinone frá Udinese í fyrrasumar. Hann er nú mættur til Udinese í endurhæfingu en þar lék hann frá 2016 til 2018 við góðan orðstír.

„Udinese bauð mér að koma til sín og vera í endurhæfingu þar til að komast í stand. Hér er allt til alls og ég fæ að nota þeirra aðstöðu. Þetta var vel boðið hjá þeim og ég ákvað að nýta mér þetta," sagði Emil við Fótbolta.net í dag.

Ekki með landsliðinu í mars
Emil er félagslaus í augnablikinu en hann segir ekki ljóst hvort hann muni semja við Udinese á nýjan leik.

„Ég veit það ekki. Við erum aðeins að skoða stöðuna. Ég ákvað að þiggja þetta hrikalega góða boð. Ég kom hingað í lok síðustu viku og er að æfa með fitness þjálfara hér og er í sjúkraþjálfun."

Hinn 34 ára gamli Emil verður ekki með íslenska landsliðinu í fyrstu leikjunum í undankeppni EM gegn Andorra og Frakklandi í lok næsta mánaðar.

„Ég verð að komast í gang þá. Það er mánuður í að ég geti byrjað að æfa með liði og síðan eru kannski aðrar tvær til fjórar vikur eftir það í að komast í form. Endurhæfingin gengur vel og allt er eins og það á að vera."

Gæti náð lokaleikjunum á tímabilinu
Emil gæti náð lokasprettinum á Ítalíu eða annars staðar ef hann semur við nýtt félag á næstu vikum.

„Það er alls ekki útilokað. Ég hef tíma til 28. febrúar til að semja við lið á Ítalíu. Í öðrum löndum er lengri tími. Ég ætla að sjá hvað gerist. Það sem skiptir mestu máli er að ná sér 100% af þessum hnémeiðslum til að ég geti spilað fótbolta á góðu leveli næstu árin," sagði Emil.
Athugasemdir
banner
banner
banner