Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 18. ágúst 2019 19:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Brandur með bæði í endurkomusigri
Brandur skoraði bæði mörk FH.
Brandur skoraði bæði mörk FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Morten Beck fékk rautt undir lok leiksins.
Morten Beck fékk rautt undir lok leiksins.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH 2 - 1 Fylkir
0-1 Ólafur Ingi Skúlason ('50 )
1-1 Brandur Hendriksson Olsen ('62 )
2-1 Brandur Hendriksson Olsen ('90 )
Lestu nánar um leikinn

Það er gleði í Kaplakrika um þessar mundir. FH vann í dag Fylki og er í þriðja sæti Pepsi Max-deildarinnar.

Fyrri hálfleikurinn var rólegur framan af. Á lokamínútum fyrri hálfleiks átti Atli Guðnason skot sem fór í slána eftir undirbúning Morten Beck. Staðan var markalaus eftir fyrri hálfleikinn.

Eftir fimm mínútur í fyrri hálfleik skoraði Ólafur Ingi Skúlason fyrsta markið í leiknum. „Daði Ólafsson með góða hornspyrnu og fyrirliðinn Ólafur Ingi rís hæst í teignum og stangar boltann inn. Nú verður þetta að alvöru leik," sagði Kristófer Jónsson í beinni textalýsingu.

FH ætlaði sér ekki að tapa þessum leik. Hafnfirðingarnir voru nálægt því að jafna á 53. mínútu þegar Stefán Logi í marki Fylkis varði frábærlega frá Morten Beck.

Heimamenn jöfnuðu metin á 62. mínútu og var það Færeyingurinn Brandur Olsen sem gerði það. Hann hafði ekki sagt sitt síðasta í leiknum því hann skoraði sigurmark FH á 90. mínútu. „Laglegt samspil hjá FH sem endar með að Halldór Orri setur hann út á Brand sem að þrumar honum í nærhornið," skrifaði Kristófer, en bæði lið höfðu fengið færi til að skora áður en Brandur gerði það.

Brandur átti mjög góðan leik þegar FH komst í bikarúrslit í síðustu viku með 3-1 sigri á KR. Eftir þann leik sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH: „Ég vona að menn sjái það að Brandur er ágætis spilari. Þegar þú ert að koma sem erlendur leikmaður þá þarf aðeins meira en það til að sannfæra. Sumum finnst Phil Collins góður trommuleikari, öðrum finnst Lars Ulrich góður. Mér finnst Brandur frábær fótboltamaður."

Brandur stóð undir þessum orðum Óla í dag.

Á lokamínútum leiksins fékk Morten Beck, sóknarmaður FH, að líta beint rautt spjald. Hann steig ofan á andlit Ólafs Inga, fyrirliða Fylkis og fékk að launum rautt spjald.

Lokatölur í Kaplakrika voru 2-1 fyrir FH sem er í þriðja sæti með 28 stig. Fylkir er með 22 stig í áttunda sæti.

Fyrir nokkrum vikum var umræðan mjög neikvæð um FH. Nú er liðið í Evrópusæti og komið í bikarúrslit. Þetta er fljótt að breytast í fótboltanum.

Sjá einnig:
Fyrsta stig ÍBV síðan 2. júní
Stefan Alexander bjargaði stigi gegn HK

Textalýsing:
19:15 Stjarnan - ÍA
Athugasemdir
banner
banner