þri 18. desember 2018 22:38
Ívan Guðjón Baldursson
Pep: Mættum með 17 ára strák og nokkra meidda
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola var ánægður að sjá lærisveina sína leggja Leicester City að velli í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins.

Hvorugt lið mætti með sitt vanalega byrjunarlið til leiks, þar sem heimamenn í Leicester gerðu sjö breytingar frá síðasta leik og gestirnir frá Manchester átta.

Manchester City komst yfir snemma leiks en heimamenn náðu að jafna í síðari hálfleik og því var blásið til vítaspyrnukeppni.

„Það er alltaf erfitt að heimsækja Leicester. Við mættum til leiks með 17 ára strák og nokkra meidda leikmenn, en þetta var góður leikur," sagði Pep að leikslokum.

„Raheem tók þessa ákvörðun að taka Panenka vítaspyrnu. Því miður klúðraði hann en það er í lagi."

Pep var svo spurður út í brottrekstur Jose Mourinho frá Manchester United síðan í morgun.

„Mér finnst alltaf sorglegt þegar knattspyrnustjóri er rekinn. Þegar úrslitin skila sér ekki þá er maður rekinn.

„Mourinho þarfnast mín ekki, hann er mjög sterkur einstaklingur. Ég óska honum alls hins besta, hann mun snúa aftur von bráðar."

Athugasemdir
banner
banner
banner