banner
   þri 19. febrúar 2019 22:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Klopp segir að um góð úrslit sé að ræða
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að liðið hafi náð í góð úrslit með því að gera markalaust jafntefli við Bayern München í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Leikurinn var á Anfield í Liverpool.

„Við gerðum okkur erfitt fyrir með síðustu sendinguna. Við klúðruðum 10 eða 12 álitlegum stöðum. Við getum spilað betur. Við eigum að spila betur," sagði Klopp við BT Sport.

„Í fyrri hálfleiknum fengum við betri færi. Ég get ekki munað eftir færi hjá hvoru liði í seinni hálfleiknum. Þetta var ekki Meistaradeildarkvöld að því leyti."

„Þetta eru engin draumaúrslit, en þetta eru góð úrslit."

Liverpool var án Virgil van Dijk í leiknum og var Klopp ánægður með varnarleikinn í hans fjarveru.

„Við héldum hreinu án stóra mannsins. Margir hefðu ekki búist við því. Varnarleikurinn var góður. Það voru margir hlutir mjög góðir. Ég er ekki í skýjunum, en ég er sáttur."

„Þetta er ekki leikur sem við minnumst eftir 30 ár. Þetta eru úrslitin sem við höfum og við munum vinna með þau."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner