þri 19. febrúar 2019 09:25
Elvar Geir Magnússon
Sutton: Þetta er búið spil hjá Sarri
Rekinn fyrir næsta leik?
Rekinn fyrir næsta leik?
Mynd: Getty Images
Chris Sutton, fyrrum leikmaður Chelsea, telur að Maurizio Sarri verði rekinn fyrir næsta leik. Chelsea tapaði 0-2 fyrir Manchester United í gær.

Stuðningsmenn beggja liða sameinuðust í að syngja „Þú verður rekinn á morgun!" til Maurizio Sarri en mjög heitt er undir ítalska stjóranum.

Sutton lýsti leiknum í útvarpi og sagði: „Þetta er síðasti leikur Maurizio Sarri hjá Chelsea. Ítalska verkefninu er lokið, þetta er búið spil."

„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að hann mun verða rekinn; fyrir það sem hann hefur sagt, hann nær ekki til leikmanna, getur ekki aðlagast og getur ekki breytt hlutunum. Hann lifir þetta ekki af."

Næsti leikur Chelsea er gegn Malmö í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudag. Á sunnudag leikur liðið svo úrslitaleik gegn Manchester City í deildabikarnum.

„Til hvers að taka áhættuna á að láta hann stýra leiknum gegn City?" sagði Sutton en City vann 6-0 sigur gegn Chelsea í deildinni nýlega,

Sarri er fyrrum stjóri Napoli en hann hefur aldrei unnið titil sem stjóri. Hann tók við af Antonio Conte síðasta sumar en leikmönnum hefur gengið illa að aðlagast hugmyndafræði hans.

Sarri hefur einnig verið gagnrýndur fyrir fyrirsjáanlegar skiptingar og liðsval sitt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner