þri 19. mars 2019 21:00
Brynjar Ingi Erluson
Kane hrósar Hudson-Odoi - „Hefur verið frábær síðustu daga"
Harry Kane, Dele Alli, Declan RIce og Callum Hudson-Odoi á landsliðsæfingu
Harry Kane, Dele Alli, Declan RIce og Callum Hudson-Odoi á landsliðsæfingu
Mynd: Getty Images
Harry Kane, fyrirliði enska landsliðsins, er afar hrifinn af frammistöðu Callum Hudson-Odoi á æfingum landsliðsins.

Hudson-Odoi er aðeins 18 ára gamall en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann spilað 19 leiki fyrir Chelsea á þessu tímabili og skorað 5 mörk.

Hann var valinn í A-landslið Englands á dögunum er Luke Shaw ákvað að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.

„Hann hefur verið frábær síðustu daga. Það eru allir spenntir að hafa hann hérna og allir eru að berjast um sæti í liðinu. Hann horfir á þetta sem stórt tækifæri," sagði Kane.

Hudson-Odoi var lykilmaður í U17 ára landsliði Englands sem hann HM árið 2017 en hefur þó ekki enn spilað fyrir U21 árs landsliðið. Þetta er því hátt stökk fyrir vængmanninn.

„Við í Tottenham mættum honum í deildabikarnum og hann spilaði mjög vel. Það var í fyrsta sinn sem ég sá hann spila og hann virkar mjög hungraður í að standa sig," sagði hann í lokin.

Englendingar mæta Tékkum á föstudag áður en liðið mætir Svartfjallalandi á mánudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner