sun 19. apríl 2020 21:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gamalt stórveldi í kínverskum fótbolta í mikilli hættu
Kínverskur fótbolti hefur vaxið á ógnarhraða.
Kínverskur fótbolti hefur vaxið á ógnarhraða.
Mynd: Getty Images
Jacob Mulenga.
Jacob Mulenga.
Mynd: Getty Images
Fyrir þremur áratugum var Liaoning FC risinn í kínverskum fótbolta, en núna er félagið í hættu vegna fjarhagsvandræða.

Liaoning FC vann kínversku úrvalsdeildina sex sinnum á sjö áru frá 1987 til 1993, ásamt því að komast tvisvar sinnum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Asíu. Síðustu ár hafa ekki verið eins góð. Liðið hafnaði í næst neðsta sæti B-deildarinnar á síðustu leiktíð, en náði þrátt fyrir það að halda sér uppi.

Núna er félagið hins vegar í hættu á að verða ekki lengur til vegna fjárhagsvandræða.

Síðastliðin ár hafa ýmis stór nöfn í fótboltaheiminum farið til Kína og sótt þar góðan aur. Knattspyrnuyfirvöld í Kína hafa reynt að koma í veg fyrir það með því að setja á launaþak og útlendingakvóta. Það er gert til þess að félög geri meira til þess að þróa eigin leikmenn og sterkari kínverska leikmenn.

Kínverskur fótbolti hefur vaxið á ógnarhraða og Liaoning gæti orðið fórnarlamb þess. „Allt árið 2019 þá fékk ég ekki laun," segir Jacob Mulenga, fótboltamaður frá Zambíu, sem gekk í raðir félagsins árið 2018.

„Ég hef spilað í Kína í fimm ár og mitt fyrrum félag Shijiashuang stóð að öllu sínu mjög fagmannlega. Allt var gert á réttum tíma, en svo fór ég til Liaoning og þá hófust vandamálin," sagði Mulenga við Reuters.

Mulenga hefur farið með sitt mál til alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, en hann og aðrir leikmenn félagsins eru að bíða eftir því að sjá hvað kínverska knattspyrnusambandið gerir við Liaoning. Þrjú önnur félög í kínversku B-deildinni - Guangdong South China Tigers, Sichuan Longfor og Shanghai Shenxin - hafa nú þegar verið leyst upp. Örlög Liaoning, þessa gamla stórveldis í Kína, eru óljós.

Kínverska ofurdeildin átti að hefjast í febrúar, en hefur ekki getað hafist vegna kórónuveirunnar sem á upptök sín í Kína.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner