Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 19. apríl 2020 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Henderson heillaði strax með persónuleika sínum og vilja
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool.
Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool.
Mynd: Getty Images
Steve Bruce, stjóri Newcastle, segist hafa vitað það um leið og hann hitti Jordan Henderson að hann væri mikill leiðtogi.

Bruce þjálfaði Henderson hjá Sunderland, en Henderson gekk í raðir Liverpool árið 2011. Henderson var oft gerður að blóraböggli þegar illa gekk á fyrstu árum sínum hjá Liverpool. Núna hins vegar á síðustu árum hafa vinsældir hans aukist mikið.

Henderson er mikilvægur innan sem utan vallar. Leikmenn í forsvari fyrir ensku úrvalsdeildina hafa stofnað sjóð sem á að styðja við bakið á heilbrigðiskerfinu í Englandi. Góðgerðasjóðurinn ber heitið #PlayersTogether eða #LeikmennSameinast og er þetta til að styðja við heilbrigðiskerfið á tímum kórónaveirunnar. Það var Henderson sem átti frumkvæðið að því að stofna sjóðinn.

Bruce ræddi við The Mirror um hinn 29 ára gamla Henderson. Hann sagði: „Jordan heillaði mig um leið og ég byrjaði hjá Sunderland. Hann heillaði mig með persónuleika sínum og vilja sínum til að vinna fyrir hlutunum."

„Það var undirbúningstímabil og því fylgja hlaup. Hann var alltaf fremstur, féll síðan aftar og hjálpaði þeim sem voru fyrir aftan hann. Svo þegar hlaupið kláraðist þá var hann mættur fremstur aftur. Þú gast ekki verið annað en hrifinn af því."

„Ég held að hann virðurkenni það sjálfur að hann fæddist ekki með mikla náttúrulega hæfileika sem fótboltamaður. En hann lét það ekki stöðva sig, hann er frábær íþróttamaður með mikla leiðtogahæfileika."

Henderson lyfti Meistaradeildarbikarnum með Liverpool á síðustu leiktíð og mun lyfta enska úrvalsdeildartitlinum þegar hægt verður að halda deildinni áfram. Hún er ekki í gangi núna vegna kórónuveirunnar, en Liverpool er með 25 stiga forskot á toppnum.
Athugasemdir
banner
banner