sun 19. apríl 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
John Terry selur treyjur frá Usain Bolt og Maradona á uppboði
Mynd: Getty Images
John Terry, goðsögn hjá enska landsliðinu og Chelsea, ætlar að leggja yfirvöldum lið í baráttunni gegn kórónuveirunni með því að bjóða upp hina ýmsu gripi sem hann hefur sankað að sér í gegnum tíðina.

Peningurinn sem nafnast mun allur renna til heilbrigðisþjónustunnar og Make-A-Wish samtakanna, sem láta óskir rætast fyrir langveik börn sem eiga litla sem enga möguleika á að halda lífi til lengdar.

Terry byrjaði á því að setja upp styrktarsíðu með það að markmiði að safna 250 þúsund pundum. Eins og staðan er í dag er Terry kominn með rétt tæp 215 þúsund pund og er búinn að selja mikið af gripum í gegnum eBay.

Þar er Terry að selja eiginhandaráritanir fyrir lítinn pening en er einnig með merkilegri hluti til sölu. Hæsta boð í fyrirliðaband Terry stendur til dæmis í rétt tæpum 2000 evrum. Þá stendur hæsta boð í áritaða Chelsea-treyju Terry frá 2018-19 tímabilinu með fyrirliðabandinu í rétt rúmum 4000 evrum.

„Það sem Joe Cole gerði veitti mér innblástur, ég vildi gera eitthvað sem skipti máli. Ég hef verið sendiherra fyrir Make-A-Wish samtökin í um 15 ár og það er málefni sem ég held mikið uppá," sagði Terry við Jamie Carragher og Geoff Shreeves á Sky Sports.

„Viðbrögð þjóðarinnar við þessari söfnun minni hafa verið ótrúleg og ég er virkilega stoltur af því."

Meðal sölugripa Terry má finna treyjur frá Diego Armando Maradona og Usain Bolt.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner