sun 19. apríl 2020 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Mancini: Frestun EM kemur sér vel fyrir Ítalíu
Mynd: Getty Images
Roberto Mancini hefur fengið mikið lof fyrir því starfi sem hann hefur sinnt í þjálfarastól ítalska landsliðsins.

Hann hefur fundið áhugaverðar lausnir í miðjum kynslóðaskiptum hjá landsliðinu og rúllaði ítalska landsliðið gjörsamlega yfir undanriðilinn fyrir EM sem átti að vera haldið í sumar og endaði með fullt hús stiga og markatöluna 37-4.

Þá sýndu Ítalir góðar rispur í Þjóðadeildinni en enduðu í öðru sæti sins riðils, fyrir neðan Portúgal og fyrir ofan Pólland.

Evrópumótið verður þó ekki haldið í sumar vegna kórónuveirunnar. Það hefur verið fært til næsta sumars og segir Mancini að það geti komið sér vel fyrir ungt landslið Ítala.

„Ég er ánægður að okkur tókst að fá stuðningsmenn um borð í landsliðsvagninn aftur eftir erfiða tíma. Okkur tókst það með frábærum frammistöðum og glimrandi sóknarleik. Strákarnir föttuðu að þeir eru ekki svo lélegir, það vantaði bara uppá sjálfstraustið," sagði Mancini.

„Við erum með eitt af yngstu liðum Evrópukeppninnar og þessi ársfrestun mun því koma sér betur fyrir okkur heldur en önnur landslið. Við erum búnir að setja saman góðan leikmannahóp sem getur reynt að vinna fyrstu Evrópukeppni fyrir hönd Ítalíu síðan 1968."

Ítalir hafa tvisvar sinnum komist í úrslit á EM eftir sigurinn 1968. Árið 2000 tapaði Ítalía á afar dramatískan hátt gegn Frakklandi og 2012 steinláu lærisveinar Cesare Prandelli gegn Spáni.

Frestunin á Evrópumótinu kemur sér einstaklega vel fyrir Nicoló Zaniolo, ungstirni AS Roma, sem er meiddur á hné. Hann hefur sýnt mikil gæði og telur Mancini hann geta orðið lykilmann í landsliðinu á næsta ári.

Ungir, ítalskir miðjumenn hafa litið einstaklega vel út að undanförnu og hefur mikið verið rætt um Stefano Sensi, Sandro Tonali og Nicoló Barella auk kantmanna á borð við Federico Chiesa og Riccardo Orsolini.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner