sun 19. apríl 2020 11:30
Ívan Guðjón Baldursson
Þarf 250 starfsmenn til að leikur geti farið fram fyrir luktum dyrum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Stefnt er að hefja enska knattspyrnutímabilið aftur í júní og verið er að skoða leiðir til að láta leiki fara fram án utanaðkomandi smithættu.

Vandinn er margþættur og felst aðallega í fjölda starfsmanna sem þarf til að fótboltaleikur geti farið fram. Það eru ekki einungis leikmenn, þjálfarar og dómarar á leikdegi heldur eru hátt upp í 200 manns sem starfa á bak við tjöldin til að einn leikur geti farið fram, þó spilað sé fyrir luktum dyrum.

Frá þessu greinir Mark Ogden, fréttamaður á ESPN, og segir gífurlega mikla áskorun felast í því að halda öllu þessu fólki heilbrigðu.

„Fólk áttar sig ekki á hversu mikið af starfsfólki þarf til að fótboltaleikur geti farið fram. Þegar fótboltinn snýr aftur þarf 150-200 manns á leikdegi, þetta eru ekki bara 22 leikmenn og dómarar," sagði ónefndur stjórnarmaður toppbaráttuliðs í Championship deildnni við Ogden.

„Til dæmis þarf sex öryggisfulltrúa þó leikurinn sé spilaður fyrir luktum dyrum. Þessa tölu þarf að fimmfalda til að standast reglur í úrvalsdeildinni. Það mun því augljóslega ekki vera hægt að spila fótbolta fyrr en slakað verður verulega á samkomubanninu."

ESPN ræddi við stjórnendur félaga í Championship og úrvalsdeildinni og fékk sendar áhugaverðar upplýsingar. Félag í Championship þarf 166 starfsmenn til að heimaleikur geti farið fram fyrir luktum dyrum. Í úrvalsdeildinni er talan nær 300.

Í úrvalsdeildarleik eru um 120 manns sem starfa í kringum útsendinguna. Bakvið tjöldin eru græjarar, rafvirkjar, tæknimenn, framleiðendur, hljóðverkfræðingar og upptökulið sem eru álíka mikilvægir og lýsendur og fjölmiðlamenn.

Það eru átján leikmenn í hvoru liði auk þjálfarateymis, sjúkraþjálfara og fimm manna dómarateymis. Maðurinn sem sér um treyjurnar er einnig mikilvægur á leikdegi og svo eru félög með ýmsa greinendur í starfi sem fylgjast náið með leikjum.

Þó ekki sé nóg að vera með einn sjúkraþjálfara ætti einn læknir að nægja á hvert lið. Það þarf fjóra sjúkraflutningamenn og bílstjóra auk nokkurra lögregluþjóna. Svo eru boltastrákarnir sem gætu lent í vandræðum þegar knettinum er dúndrað upp í stúku.

Þá á enn eftir að telja vallarstarfsmenn sem passa upp á völlinn sjálfan með aðgerðum fyrir leik, í hálfleik og að leikslokum. Lið í Championship eru með fjóra svona starfsmenn en úrvalsdeildarfélög geta verið með allt að tuttugu manns.

Það er margt starfsfólk sem fylgir VAR herberginu og svo gætu ákveðnir hópar stuðningsmanna orðið til vandræða.

Svona er hægt að halda lengi áfram og mögulegt að ríkisstjórnin þurfi að veita knattspyrnuheiminum sérstaka undantekningu á reglum varðandi samkomubann ef enski boltinn á að fara aftur af stað fyrir haust.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner