þri 19. maí 2020 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stytta af Bielsa í happadrætti: Leeds bjargvættur fyrir mig
Marcelo Bielsa, þjálfari Leeds.
Marcelo Bielsa, þjálfari Leeds.
Mynd: Getty Images
Knattspyrnustjórinn Marcelo Bielsa er afar vinsæll hjá stuðningsmönnum Leeds.

Núna, þökk sé Leeds stuðningsmanninum Tony Clark, gæti einhver aðdáandi Bielsa fengið styttu af Argentínumaðurinn sem stundum er kallaður 'El Loco (sá klikkaði)'. Styttan er svipað stór og hinn raunverulegi Bielsa og er hún um 75 kíló.

Clark lifði af hryðjuverkaárás á Balí árið 2002 þar sem 202 manns létust. Hann ætlar að gefa styttuna í happadrætti, en hægt er að taka þátt með því að gefa að minnsta kosti tíu pund, það sem jafngildir rúmum 1700 íslenskum krónum, á söfnunarsíðu Clark. Hann vonast til að safna 20 þúsund pundum fyrir góðgerðarsamtökin Mind sem stuðla að andlegri heilsu.

„Leeds United hefur verið bjargvættur fyrir mig og ég held að fólk sé núna að átta sig á því hversu mikilvæg knattspyrnufélög eru, núna þegar engir leikir eru í gangi. Það eru 18 ár liðin frá hryðjuverkaárásinni, en þetta er samt sem áður eitthvað sem ég þarf að lifa með á hverjum degi. Ég hélt fyrst að það væri betra að loka á þetta, en það er betra að tala. Ég vil að fólk viti að það er gott að tala um vandamálin," sagði Clark í útvarpsþætti á BBC.

Bielsa er á sínu öðru tímabili með Leeds og er hann með liðið á toppi Championship-deildarinnar.

Óvíst er hvort að tímabilið haldi áfram í Championship-deildinni og hvort að Leeds spili í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn frá 2004 á næstu leiktíð. Ekki hefur verið spilað í Championship-deildinni í tvo mánuði vegna kórónuveirufaraldursins.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner