mið 19. júní 2019 20:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Noregur: Þrjú íslensk mörk í geggjuðum bikarsigri Álasunds
Hólmbert Aron skoraði tvennu.
Hólmbert Aron skoraði tvennu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matthías skoraði í tapi gegn C-deildarliði.
Matthías skoraði í tapi gegn C-deildarliði.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði tvennu og Aron Elís Þrándarson gerði eitt mark þegar Álasund burstaði Molde, fyrrum félag Ole Gunnar Solskjær í norska bikarnum.

Álasund er á toppnum í B-deild, en Molde er á toppnum í norsku úrvalsdeildinni. Því koma þessi úrslit gríðarlega á óvart. Hólmbert kom Álasundi í 2-0 þegar innan við 20 mínútur voru liðnar af leiknum.

Á 30. mínútu missti Molde mann af velli með rautt spjald og í seinni hálfleiknum bætti Álasund við tveimur mörkum. Aron Elís gerði fjórða og síðasta markið.

Aron Elís, Hólmbert Aron,Daníel Leó Grétarsson og Davíð Kristján Ólafsson voru allir í byrjunarliðinu hjá Álasundi.

Álasund er komið áfram í 16-liða úrslit bikarsins og komust Samúel Kári Friðjónsson og félagar í Viking einnig áfram eftir 2-1 sigur gegn Ulf Sandnes á útivelli. Samúel Kári lék allan leikinn.

Dagur Dan Þórhallsson kom inn á sem varamaður á 74. mínútu í sigri úrvalsdeildarliðsins Mjøndalen gegn Gorud úr C-deild. Leikurinn endaði 1-0.

Matthías Vilhjálmsson skoraði fyrir Valerenga í 5-3 tapi gegn Bærum. Matthías minnkaði muninn í 4-3 áður en Bærum gekk frá leiknum. Matthías byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 55. mínútu, þegar útlitið var farið að versna fyrir Valerenga.

Valerenga er í sjöunda sæti í úrvalsdeild á meðan Bærum er í áttunda sæti í norsku C-deildinni. Frekar niðurlægjandi tap fyrir Valerenga.

Íslendingaliðin Lilleström og Sandefjord eru einnig úr leik. Arnór Smárason kom inn á sem varamaður í seinni hálfleik í 1-0 tapi Lilleström gegn Strømmen.

Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn í jafntefli Sandefjord gegn Odd. Sandefjord tapaði í vítakeppni, en Viðar tók ekki vítaspyrnu. Emil Pálsson lék ekki með Sandefjord vegna meiðsla.
Athugasemdir
banner
banner