Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fös 19. júní 2020 11:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í 2. deild kvenna: 4. sæti
Hömrunum er spáð 4. sæti
Hömrunum er spáð 4. sæti
Mynd: Skapti Hallgrímsson
Bojana er mætt aftur norður og tekin við þjálfun Hamranna
Bojana er mætt aftur norður og tekin við þjálfun Hamranna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tinna Arnarsdóttir verður á sínum stað í liði Hamranna
Tinna Arnarsdóttir verður á sínum stað í liði Hamranna
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-7 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1.
2.
3.
4. Hamrarnir
5. Sindri
6. Álftanes
7. ÍR
8. Fram
9. Hamar

Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 2. deild

Þjálfari: Bojana Besic tók við þjálfun Hamranna í vetur. Hún hefur áralanga reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari og var síðast í Vesturbænum þar sem hún þjálfaði bæði meistaraflokk KR og var yfirþjálfari yngri flokka.

Lið Hamranna verður í ár eins og áður að mestu leyti byggt á heimastelpum sem hafa einhvern tímann spilað með Þór/KA eða Þór og KA í yngri flokkunum og ungum og efnilegum leikmönnum á 2. og 3. flokks aldri. Þónokkrir leikmenn sem léku með Hömrunum í fyrra taka skrefið og spila með Þór/KA í efstu deild í sumar og það má reikna með töluvert breyttu Hamraliði. Þór/KA/Hamrarnir verða með sameiginlegt lið í 3.flokki í sumar og það má því búast við að sjá þónokkrar kornungar og efnilegar fá tækifæri í 2. deildinni í sumar.

Lykilmenn: Sara Mjöll Jóhannsdóttir, Lilja Björg Geirsdóttir, Tinna Arnarsdóttir

Gaman að fylgjast með: Ísfold Marý Sigtryggsdóttir er ein af efnilegu leikmönnum Þórs/KA/Hamranna í 3.flokki. Hún kom við sögu í 5 leikjum hjá Þór/KA í Pepsi Max deildinni í fyrra og fær stærra hlutverk hjá Hömrunum í 2. deild í sumar. Ísfold er fædd 2004 og hefur leikið með U15 ára landsliði Íslands.

Við heyrðum í Bojönu þjálfara og bárum undir hana spánna og sumarið sem er framundan:

„Ég vil byrja á að segja að ég fagna því að fjölmiðlar fylgist með 2. deild kvenna eins og efri deildunum. Það er mjög jákvætt fyrir kvennaboltann almennt. Varðandi spánna sjálfa þá er ég ekki mikið að pæla í henni. Okkur er samt spáð sæti ofar en við enduðum í fyrra svo það segir mér að fólk sjái að við erum að gera góða hluti í uppbyggingarstarfinu hér á Akureyri.“

Hver eru markmið Hamranna í sumar?

„Við erum ekki skráðar í mótið bara til að vera með. Við förum inn í mótið til þess að vinna hvern einasta leik. Við erum að horfa á efri hlutann í deildinni og ef allt gengur vel, þá fara upp um deild.“

„Það er frábært að það séu fleiri þátttökulið í sumar og vonandi heldur sú þróun áfram og við fáum fleiri lið á hverju ári. Það hækkar standardinn í öllum deildum.“


Bojana er nýkomin aftur á Akureyri eftir að hafa þjálfað hjá KR undanfarin ár. Hvernig er að vera komin aftur í þjálfun á Akureyri?

„Akureyri er eins og heimabær fyrir mig hér á Íslandi. Þór/KA er fyrsta félagið sem ég spilaði fyrir á Íslandi og eina félagið sem ég spilaði fyrir sem atvinnumaður. Ég á margar góðar minningar héðan. Náði góðum árangri sem leikmaður með Þór/KA og líka í þjálfun yngri flokka. Nú kem ég inn í öðruvísi hlutverki og þó það sé gaman að þjálfa þar sem maður þekkir umhverfið vel er ákveðin pressa á manni að standa sig vel og gera góða hluti, bæði með Hömrunum og Þór/KA,“ en Bojana er einnig aðstoðarþjálfari hjá Þór/KA í Pepsi-Max deildinni.

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?

„Ég tók við liðinu í febrúar og mánuði síðar var allt stoppað vegna Covid-19. En okkar leikmenn voru duglegar að æfa eins og allar hinar við þessar skrítnu aðstæður, með sérsniðnum heimaæfingum, Zoom-æfingum og fleiru. Það er mikil aldursblöndun í liðinu okkar og bara stutt síðan við gátum haft allar saman á æfingu því þær á 3.flokks aldri máttu ekki æfa með okkur fyrst. En miðað við frammistöðuna gegn sterku Tindastólsliði í æfingaleik og svo í bikarleiknum gegn Fjarðabyggð/Hetti/Leikni þá held ég að við séum tilbúnar fyrir mótið,“ segir Bojana sem á vön á harðri keppni í sterkri 2. deild.

„Fólk er að taka þessari keppni af meiri alvöru en áður. Þjálfarar setja meiri kröfur á leikmennina sína og láta unga leikmenn þróast með því að spila í alvöru keppni. 2. deild í sumar verður sterkari en í fyrra. Það verða fleiri leikir, fleiri góð lið og sterkari nýliðar. Deildin verður full af frábærum reynslumiklum leikmönnum og ungum og hæfileikaríkum leikmönnum. Þó nokkur lið séu að styrkja sig með erlendum leikmönnum mun ekkert lið fara auðveldlega í gegnum deildina. Ég reikna með mikilli spennu allt til loka.“

Komnar:
Amanda Míst Pálsdóttir frá Aftureldingu
Særún Anna Brynjarsdóttir frá Völsungi
Marsý Dröfn Jónsdóttir frá Aftureldingu
Oddný Karólína Hafsteinsdóttir frá ÍR
Þórgunnur Þorsteinsdóttir frá Leikni R.
Águsta Kristinsdóttir frá Þór/KA
Sara Mjöll Jóhannsdóttir frá Þór/KA
Hildur Marín Bergvinsdóttir frá KA
Margrét Mist Sigursteinsdóttir frá KA
Harpa Hrönn Sigurðardóttir frá Þór

Farnar:
Arna Sól Sævarsdóttir í Þór/KA
Snædís Ósk Aðalsteinsdóttir í Þór/KA
Rakel Sjöfn Stefánsdóttir í Þór/KA
Magðalena Ólafsdóttir í Þór/KA
Hulda Karen Ingvarsdóttir í Þór/KA
Aldís María Jóhannsdóttir í Tindastól
Rósa Dís Stefánsdóttir í Tindastól
Björk Nóadóttir hætt
Rakel Óla Sigmundsdóttir hætt
Elva Marý Baldursdóttir hætt

Fyrstu leikir Hamranna:
21. júní Hamrarnir – Grindavík
27. júní Hamar - Hamrarnir
28. júní HK - Hamrarnir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner