fös 19. júní 2020 19:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Til í að halda David Luiz ef hann biður ekki um mikinn pening
Luiz er mjög mistækur varnarmaður.
Luiz er mjög mistækur varnarmaður.
Mynd: Getty Images
Paul Merson.
Paul Merson.
Mynd: Getty Images
Paul Merson, fyrrum leikmaður Arsenal sem starfar sem sérfræðingur fyrir Sky Sports, vill að Arsenal reyni að halda varnarmanninum David Luiz - en bara ef hann samþykkir launalækkun.

Luiz hefur verið mikið í fréttum síðustu daga eftir hörmulega innkomu hans í 3-0 tapi gegn Manchester City fyrr í þessari viku.

Luiz tekur út leikbann í næstu tveimur leikjum og hefur hann því leikið sinn síðasta leik fyrir félagið ef hann samþykkir ekki framlengingu á samningi því núgildandi samningur hans rennur út 30. júní.

Það þarf að finna lausn varðandi framtíð Luiz og og Merson telur að það væri best fyrir Arsenal að halda honum.

„Ef hann er ekki að biðja um há laun þá ætti Arsenal að halda honum," sagði Merson við The Star. „Ef hann er ekki að biðja um mikinn pening þá myndi ég alltaf halda honum."

„Það sem gerðist gegn Man City mun ekki hjálpa honum. Einbeiting er ekki alltaf upp á hundrað hjá honum og þegar það eru engir áhorfendur þá er það enn erfiðara."

„Hann mun alltaf gera mistök, en þegar þú ert að líta á heildarpakkann þá gæti þetta virkað á réttum launum. Hann fer aldrei í felur. Hann gerir mistök og kemur alltaf staðráðinn til baka. Hann kom og sagði að þetta væri sér að kenna. Hann er heiðarlegur og er aldrei meiddur."

Merson telur að reynsla Luiz geti hjálpað yngri leikmönnum félagsins, en Luiz er með meiri reynslu en aðrir leikmenn Arsenal.

Gera má ráð fyrir því að framtíð Luiz verði komin á hreint í næstu viku. Talið er að Luiz sé með 120 þúsund pund í vikulaun hjá Arsenal.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner