Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 19. júní 2020 15:00
Magnús Már Einarsson
Viðurkenningar og nýir stjórnarmenn á aðalfundi KÞÍ
Mynd: Merki
Ingvi Sveinsson fékk viðurkenningu á fundinum.
Ingvi Sveinsson fékk viðurkenningu á fundinum.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
KÞÍ hélt aðalfund sinn í höfuðstöðvum KSÍ þann 4. júní síðastliðinn. Hér að neðan má sjá skýrslu frá fundinum.

Pistill frá KÞÍ
Ágætu félagsmenn og aðrir hlutaðeigandi.

Hinn 4. júní sl. var aðalfundur KÞÍ haldinn í höfuðstöðvum KSÍ. Um 15 manns sóttu fundinn en honum var einnig streymt á fésbókarsíðu félagsins. Er þetta í fyrsta sinn sem það er gert og virðist það hafa tekist nokkuð vel. Þá er þetta einnig í fyrsta sinn sem aðalfundur KÞÍ er í júní. Það á sér tvenns konar skýringar, annars vegar vegna breytinga sem urðu á lögum KÞÍ á síðasta aðalfundi þess efnis að nú er reikningsárið almanaaksárið og því fer aðalfundur fram á tímabilinu febrúar til apríl ár hvert og hins vegar tafir vegna COVID-19.

Dagskrá aðalfundar var hefðbundin. Er hér tæpt á því helsta.

Í upphafi gerði Hákon Sverrisson, sem er starfandi formaður KÞÍ í forföllum Sigurðar Þóris Þorsteinssonar sem er í námsleyfi í Þýskalandi, grein fyrir skýrslu stjórnar KÞÍ vegna síðasta starfsárs sem að þessu sinni var frá 1. september 2018 til og með 31. desember 2019 vegna fyrrgreindra breytinga á lögum KÞÍ. Ýmislegt kom fram í skýrslu stjórnar en það markverðasta er e.t.v. að unnið er að því koma nýrri heimasíðu KÞÍ í loftið á næstunni. Mun það verða kynnt betur þegar þar að kemur.

Því næst gerði Birgir Jónasson, gjaldkeri KÞÍ, grein fyrir reikningsskilum félagsins. Fram kom að staða félagsins hefur aldrei verið betri, þ.e. bæði er hagnaður félagsins meiri en áður hefur verið og eiginfjárstaðan er einnig betri en dæmi eru um. Skýringar á þessu eru m.a. þær að félagið hefur verið ötult í að afla fjár þar sem nú í ár er afmælisár sem fyrirséð er að muni verða nokkuð kostnaðarsamt.

Á fundinum voru bornar upp og samþykktar viðamiklar breytingar á lögum KÞÍ. Um ræðir tillögur frá gjaldkera félagsins. Nánar tiltekið er um að ræða mestu breytingar sem gerðar hafa verið á lögum KÞÍ frá stofnun félagsins. Í stuttu máli er þeim ætlað að mæla fyrir um jafnrétti, valddreifingu, aukið lýðræði og góða stjórnarhætti. Eru félagsmenn hvattir til þess að kynna sér þessar breytingar en þær verða birtar inni á heimasíðu félagsins innan skamms.

Kosningar stjórnarmanna og varamanna í stjórn fóru fram á fundinum en kosið var um sæti tveggja stjórnarmanna og tveggja varamanna. Þrír stjórnarmenn hættu störfum, þeir Aðalbjörn Hannesson, Daði Rafnsson og Halldór Þ. Halldórsson. Eru þeim veittar innilegar þakkir fyrir störf þeirra í þágu KÞÍ. Þau Helga Helgadóttir og Þórhallur Siggeirsson voru kosin stjórnarmenn og þeir Kristján Gylfi Guðmundsson og Jóhann Kristinn Gunnarsson voru kosnir í varastjórn. Þau Helga, Þórhallur og Jóhann Kristinn eru ný í stjórn félagsins en Kristján Gylfi var kosinn varamaður í annað sinn. Eru þau boðin velkomin til starfa.

Veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf við þjálfun. Um er að ræða nýja nálgun hjá stjórn KÞÍ þar sem hætt hefur verið að veita sérstök verðlaun fyrir efstu deild karla og kvenna og yngriflokka þjálfun. Er von stjórnar að þetta gefist vel. Eftirfarandi þjálfarar hlutu viðurkenningu:

Alfreð Elías Jóhannsson, knattspyrnuþjálfari hjá Selfossi.
Helga Helgadóttir, knattspyrnuþjálfari hjá Haukum.
Ingvi Sveinsson, knattspyrnuþjálfari hjá Þrótti.
Soffía Ámundadóttir, knattspyrnuþjálfari hjá Val.

Eru umræddir þjálfarar vel að þessu komnir og er þeim óskað velfarnaðar í framtíðinni.

Í lok fundar var Þórhallur Siggeirsson með erindi um hugleiðingar hans um umhverfi knattspyrnuþjálfarans. Þórhallur kom víða við í fyrirlestri sínum og er óhætt að segja að hann hafi ekki skafið utan af hlutunum. Erindi Þórhalls var einkar hreinskiptið og áhugavert. Eru félagsmenn hvattir til þess að hlýða á erindið.

Um leið og stjórn KÞÍ þakkar félagsmönnum sínum fyrir samstarfið á síðasta starfsári er athygli vakin á því unnt er að hlýða á upptöku af aðalfundinum inni fésbókarsíðu KÞÍ.

Stjórn KÞÍ.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner