banner
   sun 19. júlí 2020 20:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jón Dagur upp í annað sætið með AGF - Árni skoraði úr víti
Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Árni skoraði af vítapunktinum í sigri á Dynamo Kiev.
Árni skoraði af vítapunktinum í sigri á Dynamo Kiev.
Mynd: Kolos Kovalivka
Jón Dagur Þorsteinsson lék 70 mínútur fyrir AGF í Kaupmannahöfn er liðið vann flottan 4-2 útisigur á FC Kaupmannahöfn. Ragnar Sigurðsson var ekki í hóp hjá FCK, sem er núna í þriðja sæti. AGF fer upp í annað sætið með sigrinum.

Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn fyrir Bröndby í 1-0 tapi á heimavelli gegn AaB. Bröndby er í fjórða sæti með stigi meira en AaB þegar tvær umferðir eru eftir.

Sögusagnir eru í gangi um að Hjörtur sé á sölulista hjá Bröndby og að félög í stærri deildum vilji næla í Jón Dag eftir gott tímabil hans með AGF.

Noregur:
Íslendingaliðin í Noregi áttu ekki góðan dag. Sandefjord, Strømsgodset og Álasund töpuðu sínum leikjum; Vålerenga og Start gerðu jafntefli í leikjum sínum.

Emil Pálsson og Viðar Ari Jónsson voru báðir í byrjunarliði Sandefjord sem tapaði 2-1 á útivelli fyrir Rosenborg. Davíð Kristján Ólafsson og Hólmbert Aron Friðjónsson voru í byrjunarliði Álasunds sem tapaði á heimavelli gegn Stabæk, 3-1. Daníel Leó Grétarsson kom inn á sem varamaður. Þá var Ari Leifsson ónotaður varamaður fyrir Strømsgodset í 4-0 tapi á heimavelli gegn Molde.

Matthías Vilhjálmsson lék allan leikinn fyrir Vålerenga í markalausu jafntefli gegn Kristiansund og Guðmundur Andri Tryggvason var ekki í hópi Start í 1-1 jafntefli við Brann. Jóhannes Þór Harðarson er þjálfari Start.

Vålerenga er í þriðja sæti, Strømsgodset í áttunda sæti og eru Sandefjord, Start og Álasund þrjú neðstu lið norsku úrvalsdeildarinnar.

Pólland:
Vinstri bakvörðurinn Böðvar Böðvarsson var í byrjunarliði Jagiellonia Bialystok sem tapaði 4-0 á heimavelli gegn Lech Poznan í pólsku úrvalsdeildinni. Þetta var ellefti byrjunarliðsleikur Böðvars á tímabilinu.

Þessi leikur var í lokaumferð deildarinnar og hafna Böðvar og félagar í áttunda sætinu.

Grikkland:
Sverrir Ingi Ingason var ekki í hóp hjá PAOK sem gerði markalaust jafntefli við Aris í lokaleik liðsins í grísku úrvalsdeildinni. Sverrir hefur verið í lykilhlutverki hjá PAOK á tímabilinu en liðið hafnar í öðru sæti og tekur þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar á næsta tímabili.

Rússland:
Jón Guðni Fjóluson var ónotaður varamaður hjá Krasnodar sem tapaði 0-2 á heimavelli gegn Dinamo Moskvu. Jón Guðni hefur aðeins spilað tíu leiki á tímabilinu. Krasnodar er í þriðja sæti rússnesku úrvalsdeildarinnar.

Tyrkland:
Viðar Örn Kjartansson kom inn á sem varamaður á 38. mínútu er Yeni Malatyaspor tapaði 3-0 gegn Rizespor í tyrknesku úrvalsdeildinni. Úrslitin þýða það að Viðar og félagar eru í fallsæti fyrir lokaumferðina, þremur stigum frá öruggu sæti.

Annars er það að frétta frá Tyrklandi að Istanbul Basaksehir er búið að tryggja sér meistaratitilinn.

Úkraína:
Þessi yfirferð lýkur í Úkraínu þar sem Árni Vilhjálmsson skoraði úr vítaspyrnu fyrir Kolos Kovalivka í 2-0 sigri á Dynamo Kiev í úrvalsdeildinni. Kolos er í sjötta sæti og mun enda þar. Það er einn leikur eftir í deildinni.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner