Íslandsvinurinn Asmir Begovic er í viðræðum við enska B-deildarfélagið Leicester City en það er Fabrizio Romano sem segir frá þessu í dag.
Þessi 38 ára gamli markvörður var á mála hjá Everton á síðustu leiktíð en hann hefur spilað á Englandi síðustu tuttugu árin með félögum á borð við Bournemouth, Chelsea, Portsmouth og Stoke ásamt því að hafa farið á lán til AC Milan og Qarabag.
Hann fékk ekki nýjan samning hjá Everton eftir síðustu leiktíð og er því án félags, en það gæti verið að hann sé búinn að finna sér nýtt félag á Englandi.
Romano segir Begovic í viðræðum við Leicester City, sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Síðustu daga hefur danski markvörðurinn Mads Hermansen verið orðaður frá Leicester, en West Ham er eitt af þeim félögum sem eru að skoða hann.
Begovic kæmi með mikla reynslu inn í hóp Leicester en hann á að baki 256 leiki í ensku úrvalsdeildinni.
Bosníumaðurinn hefur síðustu tvö ár haldið markmannsnámskeið í samstarfi við Fram við afar góðar undirtektir.
Athugasemdir