
Jóhann Birnir Guðmundsson þjálfari ÍR svaraði spurningum eftir nauman sigur á útivelli gegn Völsungi í eina leik dagsins í Lengjudeild karla.
ÍR skóp 2-3 sigur á Húsavík eftir að hafa leitt með tveimur mörkum eftir þægilegan fyrri hálfleik.
„Ég er mjög ánægður með sigurinn, það er alltaf erfitt að koma hingað að spila. Mér fannst þetta dálítið skrítinn leikur en það er geggjað að koma hingað og vinna," sagði Jóhann Birnir eftir lokaflautið og hrósaði svo stuðningsmannasveitinni sem fylgdi Breiðhyltingum alla leið norður á land.
„Það er geggjað þegar fólkið okkar kemur og fylgir okkur. Stuðningsmenn hafa gert það í allt sumar og halda því vonandi bara áfram. Þetta er frábært."
ÍR er með eins stigs forystu á toppi Lengjudeildarinnar, með 28 stig eftir 13 umferðir. Geta ÍR-ingar haldið þessu áfram?
„Ég held að það sé alltaf best að taka bara einn leik í einu, að fara ekkert fram úr sér. Það eru hlutir sem við erum að gera mjög vel en það eru líka hlutir sem við þurfum að skerpa aðeins á."
Athugasemdir