banner
   sun 19. ágúst 2018 12:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þrettán ára með tvennu í 2. deild - „Ætlaði að ná þrennunni"
Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Óskar Hrafn er faðir Orra. Hér tekur hann í höndina á dómara.
Óskar Hrafn er faðir Orra. Hér tekur hann í höndina á dómara.
Mynd: Raggi Óla
Orri Steinn Óskarsson, 13 ára gamall leikmaður, kom inn á fyrir Gróttu í 2. deild karla í gær og gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk.

Orri Steinn kom inn á sem varamaður á 81. mínútu í gær og var hann búinn að skora sitt fyrsta mark tveimur mínútum síðar. Hann bætti við öðru marki sínu og fimmta marki Gróttu í leiknum á 88. mínútu. Lokatölur urðu 5-0 fyrir Gróttu, en leikurinn var gegn Hetti á Seltjarnarnesi.

„Nei eiginlega ekki," segir Orri Steinn í samtali við Fótbolta.net aðspurður að því hvort hann hafi búist við því að fá að spila þennan leik. Þetta var hans fyrsti leikur í meistaraflokki. „Ég var samt mjög þakklátur að fá nokkrar góðar mínútur."

„Ég ætlaði að skora þriðja markið en því miður tókst það ekki. Tilfinningin eftir leik var ólýsanleg."

„Frábært að hafa staðið sig undir hans stjórn"
Faðir Orra er Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Gróttu en Óskar hefur líka unnið í sjónvarpi sem sparkspekingur. Hvernig er það að spila undir stjórn föður síns?

„Það auðvitað auðveldar hlutina fyrir mig að hafa pabba sem þjálfara. Það var frábært að hafa staðið sig undir hans stjórn."

Býstu við fleiri tækifærum á næstunni eftir þessa frammistöðu í gær.

„Vonandi, við sjáum bara til í næstu leikjum," sagði Orri, en Óskar Hrafn virðist vera tilbúinn að gefa leikmönnum tækifæri. Inn á í gær kom líka Grímur Ingi Jakobsson, fæddur 2003, og átti hann stoðsendingu á Orra.

Þriðja meistaraflokksæfingin
Orri er í 3. flokki en hann mætti aðeins á sína þriðju meistaraflokksæfingu fyrir leikinn. Hann var að spila sinn fyrsta leik í meistaraflokki.

„Ég spila flestalla leiki með 3. flokki og sömuleiðis með 2. flokki þegar 3. flokks leikirnir eru ekki á sama tíma. Síðasta æfing fyrir leik var bara þeiðja meistaraflokksæfingin mín."

Toppbaráttan í 2. deild og er Grótta í þriðja til fjórða sæti með 30 stig, einu stigi frá toppnum. Orri er ekki í vafa um að Grótta getið farið upp í Inkasso-deildina.

„Að sjálfsögðu, Grótta er með topplið og getur alveg komist upp í Inkasso-deildina," sagði Orri að lokum.

Þess má geta að Orri verður 14 ára seinna í mánuðinum. Hann á afmæli 29. ágúst.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner