sun 19. ágúst 2018 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pála Marie neyðist til að leggja skóna á hilluna
Pála Marie Einarsdóttir.
Pála Marie Einarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Pála Marie Einarsdóttir hefur neyðst til að leggja skóna á hilluna. Höfuðhögg sem hún fékk er örlagavaldurinn en hún ritar pistil á Facebook þar sem hún skýrir frá ákvörðun sinni.

Pála er uppalin í Haukum en hún hefur stærstan hluta ferilsins leikið með Val. Hún lék sjö leiki í Pepsi-deildinni í sumar.

Pistill Pálu Marie í heild sinni
Þakklæti, er fyrsta orðið sem mér dettur í hug þegar ég lít tilbaka yfir knattspyrnuferilinn minn, sem ég kveð nú með söknuði. Ástæðan er Post-Concussion Syndrome.

Ég leyfði hjartanu að ráða för í alltof langan tíma, enda er sagt að ástin sé blind og ást mín á leiknum botnlaus. In the end tók líkaminn málin í sínar hendur og gaf mér engra kosta völ.

Fótbolti hefur spilað stórt hlutverk í mínu lífi og gefið mér endalaust mikið og hefur í raun verið minn fasti punktur síðastliðinn 25 ár. Alltaf til staðar hvort sem er í skini eða skúrum.
Fótboltinn hefur mótað mig og kennt mér mikið, sjálfsaga, samvinnu, skuldbindingu, samskipti, umburðarlyndi og svo margt fleira. Þetta eru hlutir sem að ég hef síðan reynt að tileinka mér í námi, vinnu og í lífinu almennt.

Liðið mitt hefur alltaf skipt mig miklu máli og það að vera góður liðsfélagi enn meira máli. Það er í raun það mikilvægasta sem að ég skil eftir mig, að hafa verið góður liðsfélagi. Mitt mat er að góður liðsfélagi setur liðið ofar en sjálfan sig, gerir aðra leikmenn í kringum sig betri, fórnar sér, gefur af sér, er jákvæður leiðtogi, sterkur í klefanum og er alltaf til staðar.

Ég er með sterka réttlætiskennd og ekki hægt að neita því að hún hafði áhrif á hvernig ég spilaði fótbolta. Ef mér fannst brotið á mér eða mínu liði, lét ég það í ljós og fannst ég þurfa bæta fyrir ef svo bar undir. Það er kannski ástæðan af hverju mótherjar mínir hafa ekki alltaf farið fögrum orðum um mig en samherjar mínir hafa gert það og það er það sem að skiptir mig máli og það sem mér þykir vænt um.

Ég veit ekki hvort það sé hægt að fæðast með hugarfar sigurvegara en það þurfti allavega lítið til að kveikja á því vopni hjá mér, ég elska að vinna, ég elska að leggja hart að mér hvort sem það er á æfingum eða í leik og uppskera sigurtilfinninguna.

Ég er sérlega þakklát fyrir allar stundirnar með liðinu mínu,sigrana, ósigrana, vináttuna, gleðina, gráturinn og allar minningarnar þar á milli. Uppskeran er tengsl og traust sem endast út lífið.

266 leikir með Val og Haukum í meistaraflokki, 74% sigrar, 11 titlar. Ég geng heldur betur stolt frá borði, takk fyrir mig.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner