Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   sun 19. ágúst 2018 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi-deildin: Grindavík stöðvaði Stjörnuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Stjarnan heimsótti Grindavík í Pepsi-deildinni í kvöld og þurfti sigur til að jafna Breiðablik á toppi deildarinnar.

Grindvíkingar eru erfiðir heim að sækja og komust yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar Aron Jóhannsson skoraði eftir frábæra fyrirgjöf frá Elias Alexander Tamburini.

Garðbæingum tókst að jafna í síðari hálfleik þegar Kristijan Jajalo varði aukaspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar í stöngina. Boltinn fór af stönginni, í bakið á Jajalo og þaðan í netið.

Leikurinn galopnaðist undir lokin þar sem bæði lið vildu sækja sigurinn en það voru gestirnir sem komust yfir á lokamínútunum eftir skelfileg mistök hjá Rene Joensen. Rene og félagar voru þrír á móti tveimur varnarmönnum Stjörnunnar en Færeyingurinn tapaði boltanum og skoruðu gestirnir í kjölfarið, við mikla reiði þjálfarateymis Grindvíkinga.

Dramatíkinni var þó hvergi nærri lokið því varamaðurinn Will Daniels jafnaði leikinn á 90. mínútu og meira var ekki skorað. Blikar geta verið ánægðir með jafnteflið því nú er Stjarnan tveimur stigum á eftir í toppbaráttunni.

Það var talsvert minni dramatík í Árbænum þar sem Fylkir fékk FH í heimsókn í nokkuð bragðdaufum leik. Franski varnarmaðurinn Cedric D'Ulivo kom FH yfir eftir hálftíma og voru Hafnfirðingar yfir í hálfleik.

Valdimar Þór Ingimundarson var snöggur að jafna fyrir heimamenn í síðari hálfleik þegar rangstöðuvörn FH klikkaði og Ragnar Bragi Sveinsson slapp í gegn. Ragnar renndi boltanum á Valdimar sem skoraði í autt markið.

Bæði lið reyndu að pota inn sigurmarki í síðari hálfleik en inn vildi boltinn ekki og 1-1 jafntefli staðreynd. Mikilvægt stig fyrir Fylki í fallbaráttunni, á meðan FH er sem fyrr jafnt Grindavík í 5-6. sæti.

Grindavík 2 - 2 Stjarnan
1-0 Aron Jóhannsson ('40)
1-1 Kristijan Jajalo ('57, sjálfsmark)
1-2 Guðjón Baldvinsson ('86)
2-2 Will Daniels ('90)

Fylkir 1 - 1 FH
0-1 Cedric D'Ulivo ('32)
1-1 Valdimar Þór Ingimundarson ('47)
Athugasemdir
banner
banner
banner