sun 19. ágúst 2018 18:57
Ívan Guðjón Baldursson
Pogba: Vonsvikinn með eigin frammistöðu
Mynd: Getty Images
Paul Pogba fyrirliði Manchester United segist vera vonsvikinn með sína eigin frammistöðu í 3-2 tapi gegn Brighton í dag.

Brighton var 3-1 yfir í hálfleik og fundu Rauðu djöflarnir litlar sem engar glufur á vörn heimamanna þar til á lokamínútunum, þegar Pogba skoraði úr vítaspyrnu.

Markið kom á 95. mínútu og lítið sem gestirnir gátu gert enda flautaði dómarinn til leiksloka skömmu síðar.

„Ég er vonsvikinn með mína eigin frammistöðu og frammistöðu liðsins. Við áttum ekki skilið að vinna þennan leik," sagði Pogba að leikslokum.

„Ég veit að ég tapaði mörgum boltum sem ég átti ekki að tapa en ég hélt áfram að reyna. Þannig er persónuleikinn minn, ég reyni alltaf að gera mitt besta fyrir liðið en það gekk ekki upp í dag.

„Brighton spilaði mjög vel og kannski vorum við ekki með rétt hugarfar því við áttum ótrúlega erfitt með að komast í gegnum vörnina þeirra.

„Raunveruleikinn er einfaldur. Við spiluðum ekki nógu vel og þeir áttu skilið að sigra okkur."

Athugasemdir
banner
banner
banner