Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fös 19. október 2018 09:30
Elvar Geir Magnússon
Rooney hafnaði stjörnumeðhöndlun frá félagi sínu
Wayne Rooney hefur það gott hjá DC United.
Wayne Rooney hefur það gott hjá DC United.
Mynd: Getty Images
Wayne Rooney hefur verið geggjaður með DC United í bandarísku MLS-deildinni, hann er kominn með 10 mörk í 17 leikjum og hefur hjálpað liðinu að klifra upp töfluna.

Í nýju viðtali við Men In Blazers segist hann hafa hafnað því að fá stjörnumeðhöndlun frá DC United. Honum hafi verið boðið að fljúga á fyrsta farrými á meðan liðsfélagar hans voru aftar í vélinni og að fá stórt hótelherbergi út af fyrir sig meðan liðsfélagar hans deildu herbergjum.

„Ef þú ætlar að vera hluti af liði þá verður þú að vera hluti af liðinu alla leið og gera sömu hluti. Ég vil fá sömu meðhöndlun og aðrir leikmenn hérna. Það hjálpar þér að kynnast liðsfélögunum og spjalla við þá," segir Rooney.

Rooney saknar þess að geta ekki spilað FIFA við vini sína en hann var vanur því að spila tölvuleikinn vinsæla þegar börnin hans voru farin í háttinn. Tímamismunurinn milli Bretlands og Bandaríkjanna flækir málin mikið.

„Að fara út með krökkunum hérna er samt mun þægilegra en í Bretlandi. Heima þurfti þetta að vera miklu skipulagðara. Hér sæki ég þau í skólann og spyr hvað þau vilji gera. Við förum í bíó, verslanir og veitingastaði. Heima var maður alltaf að horfa yfir öxlina á sér og spá í hverjir væru að taka myndir eða myndbönd af þér. Ég saknaði þess að gera hluti sem venjulegt fólk gerir," segir Rooney.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner