þri 19. október 2021 10:58
Elvar Geir Magnússon
18 af 20 félögum kusu með því að setja bann á vissa auglýsingasamninga
Stuðningsmenn Newcastle.
Stuðningsmenn Newcastle.
Mynd: Getty Images
Ensk úrvalsdeildarfélög hafa kosið með því að setja tímabundið bann á stóra auglýsingasamninga sem tengjast eigendum félaganna. Þetta var ákveðið í kjölfar þess að fjárfestingasjóður Sádi-Arabíu keypti Newcastle.

Newcastle kaus á móti tímabundna banninu en Manchester City sat hjá. Bæði félög hafa sett spurningamerki við hvort bannið sé löglegt. Hin átján félögin kusu með því.

Bannið gildir í einn mánuð og á meðan munu eigendurnir ræða þetta mál frekar.

Sett hafa verið spurningamerki við að nýir eigendur Newcastle hafi staðist ákveðið próf sem eigendur félaga í ensku úrvalsdeildinni þurfa að standast.

Andrea Radriazzani eigandi Leeds sagði í síðustu viku að það þyrfti að efla fjárhagsreglur í ensku úrvalsdeildinni svo félögin „séu að spila sama leikinn".

Krónprinsinn í Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, er einn aðalmaðurinn bak við kaupin á Newcastle sem skyndilega er orðið ríkasta fótboltafélag heims.

Fjöldi félaga í Evrópu eru með auglýsingasamninga sem tengjast eigendum sínum. Leikvangur, æfingasvæði og treyjur Manchester City eru styrktar af Etihad flugfélaginu frá Abu Dhabi svo dæmi sé tekið.
Athugasemdir
banner
banner
banner