þri 19. október 2021 16:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Er hægri bakvarðarstaðan vandræðastaða í landsliðinu?
Icelandair
Guðný lék í hægri bakverði gegn Hollandi.
Guðný lék í hægri bakverði gegn Hollandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þrír leikmenn hafa spilað í hægri bakvarðarstöðunni frá því að Þorsteinn Halldórsson tók við sem þjálfari kvennalandsliðsþjálfari í upphafi árs. Bjarni Helgason, blaðamaður hjá Morgunblaðinu, spurði Steina út í stöðuna í Teams-viðtali í dag.

Hægri bakvarðarstaðan, mismunandi skoðanir hvort það sé vandræðastaða. Það er búið að flakka aðeins til með leikmenn í þessari stöðu. Ertu eitthvað nær því hver gæti leyst þessa stöðu til frambúðar?

„Já, ég held ég sé alveg að færast nær því. Ég er held ég búinn að spila með þrjá leikmenn í hægri bakvarðarstöðunni og allar leyst það vel," sagði Steini.

„Það kemur bara í ljós, hlutirnir þróast eins og þeir þróast. Það kemur bara í ljós hvort að einhver leikmaður muni koma til með að grípa stöðuna almennilega."

Steini sagði fyrir leikinn gegn Hollandi að hann liti á Guðnýju Árnadóttur sem kost í hægri bakvarðarstöðuna en hún hefur oftast spilað í miðverði. Þegar sá landsliðshópur var skoðaður virtist Elísa Viðarsdóttir vera eini eiginlegi hægri bakvörðurinn í hópnum. Guðný spilaði gegn Hollandi og átti fínasta leik.

Ásamt þeim Elísu og Guðnýju hefur Hafrún Rakel Halldórsdóttir einnig spilað sem hægri bakvörður í landsliðinu frá því að Steini tók við. Þær þrjár eru allar í hópnum sem kom saman í gær en framundan eru heimaleikir gegn Tékklandi og Kýpur í undankeppni HM.
Athugasemdir
banner
banner
banner