Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 20. febrúar 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ber Jón Daða saman við Heskey - „Elskuðu að spila með honum"
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emile Heskey í leik með Englandi gegn Íslandi fyrir nokkrum árum síðan.
Emile Heskey í leik með Englandi gegn Íslandi fyrir nokkrum árum síðan.
Guðmundur Þórarinsson.
Guðmundur Þórarinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótboltaþjálfarinn Ian Burchnall hefur unnið með fjölmörgum Íslendingum á ferli sínum í þjálfun. Hann hefur þjálfað í Noregi og Svíþjóð hjá þremur mismunandi félagsliðum; Sarpsborg, Östersund og Viking.

Sjá einnig:
Ian Burchnall - Englendingurinn ungi sem vildi taka við Íslandi

„Ég hef unnið með mörgum Íslendingum í gegnum tíðina og gæti líklega stillt upp í heilt byrjunarlið bara með íslenskum leikmönnum sem ég hef unnið með. Ég þekki nokkra í landsliðinu og hef alltaf haft gaman að því að vinna með íslenskum leikmönnum," sagði Burchnall í samtali við Fótbolta.net

Hann nefnir þrjá leikmenn sem standa upp úr af þeim sem hann hefur unnið með.

„Það eru nokkrir mismunandi leikmenn af mismunandi ástæðum," segir Burchnall.

„Jón Daði Böðvarsson var ungur þegar við vorum með hann í Viking. Hann var nálægt því að fara til Kaiserslautern en missti af því vegna þess að við vorum að standa okkur mjög vel í deildinni. Við gátum ekki leyft honum að fara en hann var mjög tilbúinn að fara á þeim tímapunkti. Hann átti frábæran seinni hluta á tímabilinu og ég sá sjálfstraustið hans vaxa. Það hefur verið gaman að sjá hann standa sig vel, sérstaklega hérna á Englandi."

„Indriði Sigurðsson var mjög reyndur varnarmaður sem var hjá okkur í Viking. Hann var frábær náungi og mjög góður persónuleiki. Ég myndi líka segja Guðmundur Þórarinsson sem var með okkur í Sarpsborg. Hann var U21 landsliðsmaður en var besti leikmaður okkar í tvö ár. Við stjórnuðum leikjum mikið og vorum mikið með boltann og hann var frábær fyrir okkur. Við vorum með 60 leiki yfir tvö tímabil og ég held að hann hafi spilað 58 þeirra. Hann fór svo til Nordsjælland eftir að hafa staðið sig vel hjá okkur."

„Það eru margir hæfileikaríkir leikmenn frá Íslandi og ég hef líka mætt mörgum hæfileikaríkum íslenskum leikmönnum. Það eru auðvitað margir íslenskir leikmenn að spila í Noregi og Svíþjóð."

Burchnall hefur miklar mætur á Jóni Daða. Sóknarmaðurinn spilar núna með Millwall á Englandi en hann hefur átt stóran þátt í velgengni Íslands síðustu ár. Hann skorar ekki mikið af mörkum en Burchnall vill meina að Selfyssingurinn sé leikmaður sem aðrir elska að spila með.

„Þetta er skrýtinn samanburður og ég veit ekki hvort Jón Daði sé sáttur með hann eða ekki. Ég var stuðningsmaður Leicester í æsku og við vorum með Emile Heskey. Hann spilaði mikið með enska landsliðinu og allir aðrir leikmenn elskuðu að spila með honum. Hann fékk ekki mikið hrós því fagurfræðilega séð var ekki alltaf stórkostlegt að horfa á hann á vellinum en hann lagði á sig vinnuna sem aðrir leikmenn í kringum hann þurftu á að halda. Stundum þarftu einhvern sem er líkamlega sterkur til að vinna einvígin, sem hleypur allan daginn og getur pressað vel. Jón Daði er ekki sjálfselskur leikmaður og gerir mikið fyrir liðið. Þess vegna á hann svona marga landsleiki. Hann tekur ekki allar fyrirsagnirnar en ef þú spyrð liðsfélagana þá er hann örugglega mjög góður leikmaður að spila með. Hann gerir svo mikið án boltans," segir Burchnall.

Man eftir föður Ísaks spila með Leicester
Undirritaður spurði þá Burchnall hvort hann væri sérlega hrifinn af einhverjum íslenskum leikmanni núna. Svarið kom ekki mjög á óvart.

„Sá sem stendur upp úr hjá mér byrjaði sinn fyrsta leik gegn mér þegar ég var að stýra Östersund: Ísak Bergmann Jóhannesson. Ég man eftir föður hans (Jóhannes Karl Guðjónsson), hann spilaði fyrir Leicester fyrir mörgum árum síðan."

„Við undirbjuggum okkur fyrir leikinn gegn Norrköping en við bjuggumst ekki við því að hann myndi byrja því hann er 17 ára. Þeir voru með marga frábæra leikmenn. Svo sá ég liðið og það kom mér á óvart að hann byrjaði. Ég var fljótur í tölvuna til að finna upplýsingar um hann fyrir bakverðina. Ég sá nokkur myndbönd af honum og hugsaði með mér að þessi strákur væri nú nokkuð góður. Hann átti frábært tímabil með Norrköping og ég býst við miklu af honum í framtíðinni. Ég veit að hann er fæddur í Englandi, í Sutton Coldfield. Mér finnst hann mjög hæfileikaríkur leikmaður."

„Hann er með frábæran vinstri fót og er gáfaður leikmaður. Hann er lítill og léttur en mjög tæknilega góður," segir Burchnall um Ísak sem fór á kostum með Norrköping á síðustu leiktíð og spilaði sinn fyrsta A-landsleik með Íslandi í nóvember síðastliðnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner