banner
   lau 20. febrúar 2021 20:02
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liverpool jafnaði met - Fjórir tapleikir í röð eftir 68 án taps
Mynd: Getty Images
Liverpool tapaði sínum fjórða heimaleik í röð í ensku úrvalsdeildinni þegar liðið tapaði fyrir nágrönnum sínum í Everton á Anfield í kvöld.

Richarlison og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörk Everton í 0-2 sigri.

Þetta var fyrsti sigur Everton á Anfield frá 1999; mjög langþráður sigur hjá þeim bláklæddu.

Það hefur ekki gengið vel hjá Englandsmeisturum Liverpool í deildinni á tímabilinu. Liðið er búið að tapa fjórum heimaleikjum í röð og er það í fyrsta sinn sem það gerist í deildinni hjá félaginu síðan 1923, en þá var líka Liverpool ríkjandi Englandsmeistari.

Fram kemur á vef BBC að þetta sé jöfnun á meti hjá ríkjandi Englandsmeisturum. Bæði eigin meti frá 1923 og líka hjá Everton frá 1929 sem tapaði fjórum heimaleikjum í röð sem Englandsmeistari.

Liverpool hafði ekki tapað í 68 heimaleikjum í röð í deildinni áður en liðið tapaði fyrir Burnley fyrir nokkrum vikum síðan. Það var fyrsti tapleikurinn af þessum fjórum.

Meiðslavandræði hafa sett strik í reikninginn hjá Liverpool á tímabilinu en það eru einnig margir leikmenn að spila undir getu.
Athugasemdir
banner
banner
banner