Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 20. mars 2019 20:00
Hafliði Breiðfjörð
Peralada, Katalóníu
Ari: Bjóst aldrei við að lenda í svona bulli
Ari æfði með landsliðinu í Katalóníu í gær.
Ari æfði með landsliðinu í Katalóníu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ari Freyr Skúlason æfir þessa dagana með íslenska landsliðinu á Spáni í undirbúningi fyrir leikina gegn Andorra og Frakklandi í undankeppni EM 2020. Hann rædddi þar við Fótbolta.net um framtíð sína í fótboltanum.

Ari Freyr spilar með Lokeren í Belgíu en ástand fótboltans þar í landi er í mikilli óvissu. Þó svo liðið hans hafi endað í fallsæti er ekki ljóst hvort þeir falli vegna spillingarmála og hagræðinga úrslita.

„Ég bjóst aldrei við að lenda í svona bulli á ferlinum en þetta er búið að vera hrikalegt," sagði Ari.

„Við skítféllum en það veit enginn hvort við séum fallnir eða ekki. Það er þetta mál með hagræðingu úrslita sem er í gangi, ég hef heyrt hinar og þessar sögur en vonandi skýrist það fljótlega. Það mun örugglega gerast þegar allt er búið."

Þó Lokeren hafi lokið keppni er enn keppt í Belgíu því liðunum fyrir ofan er skipt upp í umspil á máta sem verður ekki útskýrður hér á einfaldan hátt. Altént er keppni lokið hjá Lokeren því þeir enduðu í fallsæti.

„Umspil 1 og 2 byrja núna eftir landsleikjahléið og við fáum ekki að gera neitt. Samt getur vel verið að við fáum að vera áfram í efstu deild."

Ari sér þó fram á breytta tíma hjá sjálfum sér því hann gæti verið að yfirgefa Lokeren.

„Ég er með samning fram í lok júní og eins og staðan er í dag er ég á förum. Við ætlum þó ekki að loka á neitt og ég verð bara rólegur, æfi þrisvar sinnum í viku með Lokeren í einn og hálfan mánuð og svo kemur í ljós hvað gerist," sagði Ari sem veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér.

„Ég hef ekki hugmynd. Ég er bara rólegur og ætla að skoða mína möguleika hægt og rólega. Börnin mín eru í skóla fram í júní svo ég er ekkert að stressa mig á hlutunum," sagði Ari.

„Ég er með stóra fjölskyldu og þarf að hugsa út í marga hluti. Ef það verður eitthvað ævintýri er planið að þau verði áfram í Belgíu. Annars skoðum við alla möguleika og ég hef ekki lokað á nein lið eða lönd," sagði Ari en er möguleiki á að hann endi í annarri heimsálfu?

„Jájá, það er allt opið. Ég er búinn að búa erlendis svo lengi og í nokkrum mismunandi löndum svo það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt."
Ari Freyr um Andorra: Eigum að taka þrjú stig
Athugasemdir
banner
banner