Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 20. mars 2019 18:47
Ívan Guðjón Baldursson
Leikmaður Sheffield United rekinn fyrir kynþáttaníð
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Sophie Jones, sóknarmaður Sheffield United, var dæmd í fimm leikja bann fyrir að beina apahljóðum að Renee Hector, leikmanni Tottenham, er liðin mættust 6. janúar.

Jones var kærð af knattspyrnusambandinu en neitaði sök. Eftir rannsókn var hún fundin sek og sektuð um 200 pund, eða rúmlega 30 þúsund krónur. Þar að auki þarf hún að standast námskeið gegn rasisma á vegum knattspyrnusambandsins.

Jones fundaði með nefnd knattspyrnusambandsins í gær og hélt sakleysi sínu fram en útskýringar hennar ekki teknar gildar og varð Jones að eigin sögn fyrir vonbrigðum með ákvörðun sambandsins.

Það er ekki mikið eftir af enska tímabilinu og átti samningur Jones að vera endurskoðaður í sumar þannig félagið ákvað, í sameiningu við Jones, að binda enda á samning hennar.

„Enginn ætti að verða fyrir kynþáttaníð, jafnt innan vallar sem utan. Það er mín skylda að láta vita þegar ég verð fyrir svona atvikum," sagði Renee Hector um málið.

Til samanburðar fékk John Terry fjögurra leikja bann og 220 þúsund punda sekt fyrir kynþáttaníð í garð Anton Ferdinand árið 2012. Þá fékk Luis Suarez átta leikja bann og 40 þúsund punda sekt fyrir kynþáttaníð í garð Patrice Evra 2011.

Uppfærsla:
Sophie Jones hefur í kjölfarið ákveðið að leggja skóna á hilluna.

„Ég get ekki haldið áfram að iðka knattspyrnu undir stofnun sem ég ber ekkert traust til," segir Sophie, sem neitar öllum ásökunum um kynþáttafordóma.
Athugasemdir
banner
banner