fös 20. mars 2020 16:39
Elvar Geir Magnússon
Arnar Sveinn: Ekkert annað í stöðunni en að vinna þetta saman
Arnar Sveinn Geirsson.
Arnar Sveinn Geirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Sveinn í leik með Breiðabliki.
Arnar Sveinn í leik með Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Sveinn Geirsson, leikmaður Breiðabliks og forseti Leikmannasamtaka Íslands, mætti í útvarpsþáttinn Fótbolti.net í dag.

Rætt var um stöðuna í íslenska boltanum en ljóst er að ástandið mun hafa alvarleg áhrif á fjárhag margra íþróttafélaga hér á landi.

Arnar segir að einhverjir leikmenn hafi þegar áhyggjur af því að fá ekki borgað.

„Félögin geta ekki sagt samningum upp vegna ástandsins. Það er ekkert í samningunum sem leyfir það nema það sé samkomulag milli beggja aðila," segir Arnar.

„Það voru erfiðleikar að greiða laun áður en þessi veira kom. Auðvitað gerir þetta illt verra í því."

„Það er ekkert annað í stöðunni en að vinna þetta saman. Það verður að setjast niður og finna lausn. Auðvitað vilja leikmenn fá laun sín greidd og við viljum að staðið sé við samninga. En þessi staða sem er komin upp kallar á það að einhver málamiðlun sé gerð tímabundið."

„Það þarf að skoða þetta á hverjum einasta degi og leikmenn hafa áhyggjur. Sumir eru ekki með aðrar tekjur en þær sem þeir fá úr fótbolta," segir Arnar en hann kallar eftir því að allir aðilar séu hreinskilnir.

„Það þýðir ekki að vera í einhverjum feluleikjum. Það eru allir til í að styðja við félagið sitt en það þurfa allir að vera hreinskilnir. Tölum hvort við annað eins og fullorðið fólk. Þannig munum við komast í gegnum þetta eins þægilega og mögulegt er."

Smelltu hér til að hlusta á þáttinn eða notaðu spilarann hér að neðan.


Útvarpsþátturinn - Krísufundur íslenska boltans
Athugasemdir
banner
banner
banner