Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 20. apríl 2020 18:23
Elvar Geir Magnússon
Arnar segir sárt að meðtaka fréttir dagsins: Eigendur með mjög lélegt plan
Arnar Þór Viðarsson.
Arnar Þór Viðarsson.
Mynd: Getty Images
Arnar er fyrrum leikmaður og þjálfari Lokeren.
Arnar er fyrrum leikmaður og þjálfari Lokeren.
Mynd: Fótbolti.net - Nele Bourgoignie
„Þetta er náttúrulega bara svartur dagur hjá öllum þeim sem bera tilfinningar til Lokeren," segir Arnar Þór Viðarsson, fyrrum leikmaður og þjálfari belgíska félagsins Lokeren.

Lokeren lýsti yfir gjaldþroti í dag en mörg belgísk félög eru í fjárhagsvandamálum vegna kórónaveirunnar. Mikil hefð er fyrir Íslendingum hjá félaginu.

Arnar segir að þeir eigendur sem keyptu félagið á síðasta ári hafi á ótrúlegan hátt náð að sigla því í strand.

„Lokeren var selt í júní 2019 og nýju eigendurnir áttu hreinlega ekki nógu mikinn pening. Það er ekkert leyndarmál að það kostar mikla peninga að reka atvinnumannalið og sérstaklega í erfiðum deildum eins og í Belgíu," segir Arnar.

„Rekstrarumhverfið er ekki auðvelt þar sem áhugi á fótbolta er ekki sá sami og til dæmis í Englandi. Þar af leiðandi er erfitt að ná endum saman. Það sem hefur gerst undanfarin ár í Belgíu er það að ríkir útlendingar hafa keypt mörg félög, OHL Leuven er til dæmis í eigu King Power eiganda Leicester. Þessir eigendur geta borgað upp tapið á rekstrinum og nota liðið sem uppeldisfélag."

„Nýju eigendur Lokeren voru einfaldlega með mjög lélegt viðskiptaplan og of lítið 'cashflow'. Þess vegna náðu þeir þeim einstaka árangri að sökkva heilbrigðu félagi á sex mánuðum."

Arnar lék með Lokeren frá 1997 til 2006 og starfaði síðan við þjálfun hjá félaginu eftir að ferlinum lauk. Hann segir að það sé þungt að kyngja því hvernig komið er fyrir félaginu.

„Þetta er náttúrulega bara svartur dagur hjá öllum þeim sem bera tilfinningar til Lokeren. Ég flutti hingað þegar ég var 19 ára gamall og hef búið hér síðan þá, spilaði fyrir félagið í tíu ár og var þjálfari hér í fjögur ár," segir Arnar.

„Ég fer ekkert leynt með að þetta er sárt. Sérstaklega fyrir yngri flokka starf Lokeren sem er eitt af því besta í Belgíu og hefur undanfarin tíu ár alið upp mjög marga atvinnumenn. Held að það vitir nánast allir Íslendingar hvaða lið Lokeren er þar sem margir af okkar bestu leikmönnum hafa spilað fyrir klúbbinn, Arnór (Guðjohnsen), Rúnar (Kristinsson), Arnar (Gunnlaugsson), Alfreð (Finnbogason), Sverrir Ingi, Ari Skúla og fleiri."

Arnar er yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ en á morgun verður birt langt viðtal við hann um áhrif kórónaveirunnar á fótboltann, í Belgíu og Íslandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner