mán 20. apríl 2020 23:17
Brynjar Ingi Erluson
Myndband: Töframaðurinn frá Túnis
Hatem Ben Arfa er töframaður þegar hann nennir því
Hatem Ben Arfa er töframaður þegar hann nennir því
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
„Ég veit að sumir halda að ég sé klikkaður en ég dreymi enn um að vinna Ballon d'Or verðlaunin. Ég er sannfærður um að ég geti það," sagði Hatem Ben Arfa árið 2013 er hann var á mála hjá Newcastle. Þetta eru ekki fáránlegustu ummæli allra tíma því hann hafði alla hæfileika í heiminum til að láta af þessu verða.

Ben Arfa er fæddur í Frakklandi en foreldrar hans eru frá Túnis og spilaði faðir hans með landsliði Túnis áður en hann flutti til Frakklands.

Hann hafði því ekki langt að sækja fótboltahæfileikana. Hann og Karim Benzema ruddu sér leið inn í aðallið Lyon árið 2004 og sást að það var eitthvað spunnið í þá báða.

Ben Arfa elskaði að vera með boltann og lék á mann og annan. Það er þó óhætt að segja að stöðugleiki væri ekki hans sterkasta vopn því hann gat breytt leikjum og verið hálfgerður leikstjórnandi en svo týndur í næstu leikjum á eftir.

Hæfileikarnir hafa alltaf verið til staðar. Hann spilaði með Lyon til ársins 2008 en hegðunarvandamál settu strik í reikninginn. Hann lenti upp á kant við Benzema og síðar Sebastian Squillaci á æfingu og þá endaði ævintýri hans hjá félaginu. Marseille ákvað að krækja í hann en vandræði hans héldu áfram þar.

Hann lenti í áflogum við leikmenn og síðar franska þjálfarann Didier Deschamps sem varð síðar þjálfari franska landsliðsins. Það var ákveðið að lána hann til Newcastle fyrir tímabilið 2010-2011 en hann meiddist illa í október. Þrátt fyrir það sá Newcastle hvaða hæfileika hann hafði að geyma og festi kaup á honum.

Hann bauð upp á skemmtilega takta hjá Newcastle en það var þó ekki eins oft og stuðningsmenn hefðu vonað. Hann fór á lán til Hull fyrir tímabilið 2014-2015 en lét sig hverfa í desember og sneri ekki aftur til félagsins. Steve Bruce, sem var þá stjóri Hull, sagði frá því í viðtali að hann hefði ekki hugmynd um hvar Ben Arfa væri niðurkominn og mánuði síðar var hann leystur undan samningi hjá Newcastle. Ben Arfa hefur alltaf haldið því fram að ástæðan fyrir því að hann hefur lent upp á kant við þjálfara sína og leikmenn er af því faðir hans sýndi honum aldrei þá ást og umhyggju sem hann þurfti á að halda og hafði það veruleg áhrif á hann.

Ferillinn fór þó á uppleið er hann samdi við Nice í janúar 2015 og frammistaða hans þar varð til þess að Paris Saint-Germain ákvað að festa kaup á honum. Enn og aftur var hann þó bara leikmaður sem átti sín augnablik og yfirgaf hann félagið árið 2018 og gekk til liðs við Rennes.

Hjá Rennes var hann þeirra besti leikmaður. Hann var lykilmaður í liðinu sem vann franska bikarinn á síðasta ári. Þar spilaði hann gegn PSG og tilfinningin ljúf en hann ákvað að framlengja ekki við félagið og var án félags alveg fram í janúar á þessu ári er hann samdi við Real Valladolid sem er í eigu fyrrum brasilíska landsliðsmannsins Ronaldo.

Óhætt er að segja að Ben Arfa er töframaður í hlutastarfi. Hann minnir sig á annað slagið en fróðlegt verður að sjá hvort hann eigi eitthvað inni handa stuðningsmönnum Valladolid.


Athugasemdir
banner
banner