mán 20. maí 2019 23:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óskar Örn lét ekki brákað bein í hendi stöðva sig
Óskar fagnar hér marki með Tobias Thomsen í kvöld.
Óskar fagnar hér marki með Tobias Thomsen í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Óskar Örn Hauksson átti frábæran leik í kvöld þegar KR vann 3-2 sigur á HK í Pepsi Max-deildinni. Fréttaritari Fótbolta.net á vellinum valdi Óskar mann leiksins.

Óskar varð fyrir meiðslum í síðustu umferð gegn Grindavík en lét það ekki stoppa sig.

„Hann er með brákað bein í hendi og þurfti að spila með spelku," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir leikinn í kvöld. „Hann var tilbúinn að fórna sér í þetta og kenndi sér einskis mein."

Óskar Örn hefur farið þetta mót gríðarlega vel af stað og verið einn besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar hingað til.

Staðan á Skúla ekki góð
Varnarmaðurinn Skúli Jón Friðgeirsson fékk heilahristing á æfingu á undirbúningstímabilinu og hefur ekkert komið við sögu hingað til. Rúnar segir að staðan á honum sé ekki góð.

„Hún er ekki góð," sagði Rúnar. „Það gerist voða lítið. Hann er að hvíla sig og fer í göngutúra. Í þau tvö skipti sem hann hefur prófað að skokka þá fær hann alltaf höfuðverk mjög fljótlega eftir það."

„Hann er alls ekki á góðum stað persónulega og það er mjög slæmt."

„Það er hans líf og hans framtíð sem við höfum áhyggjur af. Þetta er mjög alvarlegt mál sem við tökum mjög alvarlega. Vonandi hressist hann og verður betri."

Viðtalið má sjá í heild sinni hér að neðan.
Rúnar Kristins: Ég var mjög stressaður
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner